Succes eftir Nikolaj Sommer og Sune Aagaard

de_som_hater_sekstiaatte1_large.jpgFáir seinni tíma stjórnmálamenn á Norðurlöndum eru jafn umdeildir og umtalaðir og Pia Kjærsgaard, formaður Danska þjóðarflokksins (Dansk Folkeparti). Lengi vel var litið á hana sem olnbogabarn í dönskum stjórnmálum en á síðustu árum hefur hún risið til metorða í hinu danska völundarhúsi valdsins og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að hún sé valdamesti pólitíkus Danaveldis þar sem hún hefur líf núverandi ríkisstjórnar í hendi sér í formi stuðnings sinna manna við minnihlutastjórn hægri aflanna Venstre og Konservative.

Hvort sem sú skoðun byggir eða byggir ekki á ofmati á mikilvægi Piu Kjærsgaard er alla vega ljóst að enginn danskur stjórnmálamaður vekur upp jafn sterkar tilfinningar hjá þjóð sinni og formaður Danska þjóðarflokksins gerir. Stuðningsmenn hennar dá hana og dýrka sem sinn eina og sanna lausnara meðan að ekki er ofmælt að segja að andstæðingar hennar hafi hreinasta viðbjóð á skoðunum hennar og framsetningu þeirrar pólitíkur sem hún stendur fyrir.

Í bókinni Succes eftir blaðamennina Nikolaj Sommer og Sune Aagaard er sögð saga þessa litríka stjórnmálamanns, allt frá æsku til samtíðar. Sagan er þroskasaga millistéttarstúlku frá Kaupmannahöfn sem allt fram að þrítugu virðist ætla að feta hefðbundin spor kvenna af sinni kynslóð. Hún starfar þá við heimaaðhlynningu og sinnir þar að auki börnum og búi. En smám saman fer hún að skipta sér af pólitík og upp úr því gerast hlutirnir hratt.

Hún heillast af Mogens Glistrup og gengur til liðs við flokk hans Fremskridtspartiet og samsamar sig hugmyndum um litla ríkisforsjá og stranga innflytjendalöggjöf. Eftir því sem fram líða stundir skerpast þó línurnar á milli Glistrup og hennar og að lokum er svo komið að þau tvö eru fulltrúar höfuðandstæðra afla innan flokksins. Átökin hámarkast svo um miðjan tíunda áratuginn og enda með því að Pia Kjærsgaard og hennar hópur gengur úr Fremskridtspartiet og stofnar sinn eigin flokk 1995, Dansk Folkeparti.

Það er einkar athyglisvert að lesa um þær mismunandi hugmyndir sem að Glistrup og Kjærsgaard hafa um hina pólitísku nálgun. Hugmyndafræðin í Fremskridtspartiet byggði á anarkísku kerfi þar sem að öllu yfirvaldi var hafnað nema að því leyti að fólk sótti almennt traust sitt til Glistrups. Þetta sætti Kjærsgaard sig ekki við, hún vildi flokksaga, þoldi ekki sérvitringa og uppreisnarfólk í sínum hópi og vildi hafa skýran valdapýramída til að styðjast við.

Þetta endurspeglaðist svo í þeirri hugmyndafræði sem lagt var upp með þegar að Dansk Folkeparti var settur á laggirnar. Segja má að sá flokkur byggist að meira eða minna leyti á Piu Kjærsgaard. Hún samdi reglur flokksins, kom þar á stífum flokksaga þar sem hún áskildi sér þann rétt að geta bæði neitað fólki um aðild og geta hent því beinustu leið út án nokkurrar áfrýjunar. Hún fékk (og fær) að ráða öllu sem hún vildi ráða og hefur aldrei liðið nein frávik frá stífum flokksaga.

Segja má með sönnu að Pia hafi, því miður, reynst ákveðinn ,,trendsætter“ þegar kemur að málefnum útlendinga. Þar hafa afar ógeðfelldar og hatursfullar skoðanir hennar í áranna rás smitað út frá sér í dönskum stjórnmálum svo að því er nú þannig komið að nánast allir danskir stjórnmálaflokkar (hugsanlega að Socialistisk folkeparti, Radikale venstre og Enhedslisten undanskildum) eru smitaðir af tortryggnum viðhorfum í garð innflytjenda.

Skoðanir Piu í þessum málaflokki eru einlægar og hafa lítið breyst í áranna rás. Í öðrum efnum fellur hún hins vegar undir svokallaðan popúlisma þar sem að sannfæring hennar í einstökum málum fer mikið til eftir því einu hvað henni sýnist meirihluti dönsku þjóðarinnar kjósa í það og það skiptið.

Almennt séð má þó segja að hún hafi róið inn á mið þar sem að áður voru hefðbundnir kjósendur sitt hvorum megin við miðju og meðal annars hoggið nokkuð mikið í gamalgróinn kosningahóp sósíaldemókrata. Þetta er fyrst og fremst ófaglært fólk, það sem áður var talið til verkamannastéttar, fremur utan af landi en úr stóru bæjunum og meira eldra fólk en yngra.

Þessum hópi finnst hann oft hafa setið eftir í síðnútímavæðingu allra síðustu áratuga með aukinni alþjóðavæðingu, umróti í atvinnuháttum og streymi fólks landa og heimsálfa á milli. Það vill fá gömlu, góðu Danmörk aftur eins og hún leit út í Matador-þáttunum og Húsinu á Kristjánshöfn. Stefna Dansk Folkeparti er meðvitað sérsniðin fyrir þennan hóp en í henni felst andstaða við öll fyrrnefnd einkenni hins síðnútímavædda samfélags: andstaða við Evrópusambandið og ýmsa aðra alþjóðasamvinnu, þjóðernisleg hylling ímyndaðra ,,danskra gilda“ og kynding undir hugmyndir um innflytjendur sem þjóðfélagsmein. Hinu síðastnefnda er svo gjarnan stillt upp gegn niðurskurði í velferðarkerfinu, einkum á þjónustu við aldraða, og því haldið fram að innflytjendur sogi allan pening úr velferðarkerfinu.

Þessi uppsetning er svo sem ekkert einstök og á sér samsvörun víða um Evrópu (athyglisvert væri til dæmis að skoða Frjálslynda flokkinn á Íslandi í þessu samhengi). Danska uppskriftin hefur hins vegar heppnast einstaklega vel vegna þess að Pia Kjærsgaard er einkar klókur stjórnmálamaður og virðist kunna sinn Machiavelli ansi vel því að hún er bæði tækifærissinnuð en sér jafnframt ávallt nokkra leiki fram í tímann.

En eins og allir lesendur Furstans hans Machiavelli vita, þá þarf það alls ekkert að fara saman að vera klókur og láta gott af sér leiða. Innlegg Piu Kjærsgaard inn í dönsk stjórnmál hefur þannig einkum einkennst af því að hvetja til fordóma og andúðar á innflytjendum, þeim þjóðfélagshópi sem veikastur er fyrir í hverju samfélagi. Þar hefur hún ekki vílað fyrir sér að snúa út úr staðreyndum og spila á neikvæðar tilfinningar fólks í stað þess að halda sig við málefnalega umræðu.

Í öðrum málaflokkum hefur pólitík Piu Kjærsgaard einnig snúist um fortíðarglýju til löngu horfins samfélags sem aldrei kemur aftur og afneitun á staðreyndum alþjóðavædds samfélags á 21. öldinni. Myndi hugmyndafræði Piu Kjærsgaard komast í fulla framkvæmd myndi blasa við fullkomið gjaldþrot dönsku þjóðarinnar með tilheyrandi handstýringu til gamalla tíma. Danir hafa nú þegar að nokkru leyti sopið seyðið af ógeðfelldri pólitík hennar á sviði innflytjendamála og hafa á undanförnum árum oft uppskorið hneykslan og skömm alþjóðasamfélagsins fyrir brot sín á réttindum innflytjenda og viðhorf gagnvart þeim.

Þetta hefur valdið því að víða hefur hugmyndin um hinn frjálslynda og viðfelldna Dana vikið fyrir staðalmyndinni af hinum þröngsýna og fordómafulla Dana. Þetta er sorglegt, sérstaklega þegar litið er til þess að með þessu hefur Pia Kjærsgaard náð að sverta heila þjóð, þar sem meirihlutinn er þó enn þá jafn indæll og geðslegur og hann hefur alltaf verið.

Ekkert bendir sérstaklega til þess að vegferð Piu Kjærsgaard í danskri pólitík sé lokið. Enginn ætti til dæmis að láta það koma sér á óvart að áhrif hennar muni halda áfram að vaxa og það má til dæmis alveg ímynda sér það að einn daginn nái flokkur hennar alla leið inn í ríkisstjórn og Pia setjist þá í einn ráðherrastólanna.

Áður en það gerist leyfir maður sér hins vegar að vona að danska þjóðin ákveði fljótlega að breyta um stefnu, taki aftur upp sinn viðfelldna og frjálslynda stíl og horfi til framtíðar í stað þess að leyfa mikið lengur tortryggnum afturhaldsöflum Piu Kjærsgaard að ráða miklu meiru en hún hefur í raun umboð til.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s