Opið land eftir Eirík Bergmann Einarsson

120.jpgÞað verður seint nógu oft tíundað hversu mikið fagnaðarefni það er ávallt þegar að fræðimenn og áhugafólk um málefni líðandi stundar sest niður og setur hugleiðingar sínar á blað svo að úr verður bók. Þess vegna ber mjög að fagna bókinni Opið land eftir Eirík Bergmann Einarsson, ekki síst þar sem bókin leggur örlítið lóð á þær vogarskálar að slá á þá gúrkutíð sem íslensk bókaútgáfa er fram að jólabókavertíðinni miklu.

Ef Eiríkur Bergmann væri stjórnmálamaður væri hægt að kalla Opið land eins konar pólitísk testamenti hans en í tilviki fræðimannsins Eiríks er kannski nær að tala um samansafn hugmynda og skoðana Eiríks á hinu og þessu sem tengist alþjóðastjórnmálum og tengingu Íslands við umheiminn á tíma síaukinnar hnattvæðingar. Í bókinni er tæpt á Evrópu- og varnarsamvinnu Íslands, stríðsrekstri og átökum í Írak og víðar, innflytjendamálum og ýmsu öðru sem mjög er tekist á um þessi misserin. Eiríkur velur þá leið að taka hvert málefni fyrir út af fyrir sig en segja má að þemað ,,Staða Íslands í samfélagi þjóðanna“ (sem einnig er undirtitill ritsins) sé eins konar undirliggjandi leiðarstef.

Kannski er best að taka það bara strax fram að sá sem þetta skrifar gat líst sig sammála svo til öllum þeim skoðunum sem Eiríkur setur fram í bókinni: Eiríkur vill Ísland í ESB, hann vill slá á óttann við ímyndaða innflytjendaógn, hann var á móti Íraksstríðinu og stuðningi Íslands við þann stríðsrekstur, hann vill nútímavæða landbúnaðarkerfið og fleira mætti til telja (og öllu er ég í grunninn jafnsammála). Hann vill hafa Ísland sem opnast fyrir umheiminum, slá á heimóttarlega hræðslu okkar við það sem í kringum okkur er og heldur því fram að sá kraumandi pottur heimsmenningarinnar sem sífellt sækir meira að okkur veiki okkur ekki heldur styrki þvert á móti íslenska menningu og íslenskt samfélag. Enn og aftur: Eins og talað út úr mínu hjarta!

En svo þetta hljómi nú ekki allt eins og einhver smeðjuleg lofrulla þá er rétt að geta þess að sums staðar í bókinni þykir mér Eiríkur Bergmann fara út á ystu nöf og jafnvel út fyrir hana í málflutningi sínum en yfirleitt á það fremur við um útfærslur hugmynda hans og skoðana fremur en grundvallarálit hans á hlutunum. Skulu hér nú nefnd nokkur dæmi:

Framarlega í bókinni er umræða um Evrópumál Íslendinga. Eiríkur Bergmann dregur þar fram þá afthyglisverðu staðreynd að ráðandi öfl innan Sjálfstæðisflokksins virðast alls ekki hafa verið fráhverf aðild Íslands að ESB (þá EB) en síðan hafi þau skipt um skoðun á öndverðum tíunda áratug síðustu aldar og orðið andstæðingar aðildar. Eiríkur setur fram þá kenningu í bók sinni að sinnaskiptin í tilfelli Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns flokksins, megi fyrst og fremst rekja til persónulegra samskipta hans og Jóns Baldvins Hannibalssonar og framkomu hans og Alþýðuflokksins í stjórnarsamstarfi Viðeyjarstjórnarinnar 1991-1995.

Án þess að þessi kenning sé hér afskrifuð með öllu þá verður hún samt að teljast ansi langsótt og hæpin sérstaklega þegar litið er til þess að á þessum tíma urðu sinnaskipti hjá mörgum þjóðrækniskenndum hægriflokkum í Evrópu (Sjálfstæðisflokkurinn telst vafalaust til eins slíks) í garð ESB og tengdust þau fyrst og fremst þeim grundvallarbreytingum sem urðu á starfsemi ESB með Maastricht-samningnum og fylgifiskum þess. Dæmi um slíkt má til að mynda finna í Danmörku og víðar. Fljótt á litið verður að teljast mun líklegra að þessar breytingar á eðli Evrópusambandsins hafi mestu ráðið um sinnaskipti ýmissa forystumanna Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma.

Næsta ber að nefna hugmynd Eiríks Bergmanns um hugsanlega lausn á átökum Ísraela og Palestínumanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Eiríkur Bergmann stingur þar upp á einhvers konar sambandsríki þar sem Ísrael og Palestína mynda með sér lausbeislað ríki þar sem hið sameiginlega stjórnvald myndi fá nokkuð mikið og stórt hlutverk. Eiríkur Bergmann vísar til jákvæðrar reynslu Evrópusambandsins af slíkri samvinnu og einnig bendir hann á Bosníu í kjölfar Balkanstríðanna. Líkingin við Evrópusambandið á hins vegar tæplega við. ESB er í fyrsta lagi langt frá því að vera sambandsríki og byggir auk þess fyrst og fremst á viðskiptum og samskiptum iðnvæddustu þjóða veraldar. Í Ísrael og Palestínu er staðan allt önnur.

Meira að segja Bosníulíkingin á illa við þar sem að lausn Balkanstríðanna snerist um það að reyna að snúa aftur til fyrra horfs, það er halda sig við þá samsetningu sem fyrir var í Bosníu og koma í veg fyrir að þjóðernishreinsanir tækjust með því að tryggja að enginn hópur innan ríkisins væri í svo ráðandi stöðu að hann gæti beitt hina ofurefli. Þess fyrir utan verður að líta til lýðfræðilegs vanda þessarar lausnar Eiríks Bergmanns; því er spáð að á næstu áratugum muni Palestínumönnum fjölga mun meira en Ísraelsmönnum og það gæti sett Gyðingaríkið í tilvistarkreppu, ríki sem stundar aðskilnaðarstefnu á grundvelli trúarbragða. Fleiri rök mætti sjálfsagt nefna fyrir því að sambandsríkjalausnins sé ef til vill ekki sú nærtækasta í tilviki Ísraela og Palestínumanna.

Þegar svo kemur að umræðum um hlutverk íslenskunnar í háskólum landsins undir lok bókarinnar verð ég síðan einfaldlega að lýsa mig ögn ósammála Eiríki. Hann talar um nauðsyn þess að við hleypum ensku inn í háskólana hér sem kennslu- og samskiptamáli. Ég er sammála því að það getur verið gott og nauðsynlegt upp að vissu marki en að lokum fer þetta þó að snúast um það hvort við ætlum að hafa metnað til þess að halda uppi menntakerfi á okkar eigin móðurmáli eða hvort við ætlum að stjórnast algjörlega af hagsmunum peninga og hagræðingar. Því eins og einhver sagði: ,,Sjálfsagt væri það afar hagkvæmt fyrir okkur að leggja íslenskuna bara niður en viljum við það?“

Þetta tengist nefnilega því sem Eiríkur Bergmann kemur reyndar líka inn á sem er sú staðreynd að Íslendingar, sem og aðrir sem ekki eiga ensku að móðurmáli, ofmeta oft stórlega enskukunnáttu sína og það á líka við um fólk í framhaldsnámi í háskólum. Svo vill til að ég þekki af eigin reynslu það að nema á ensku við háskóla í Skandinavíu og veit þess vegna hversu mikla annmarka það hefur í för með sér þó að kostirnir séu vissulega líka umtalsverðir. Samskipti fólks sem tjáir sig sín á milli á öðru tungumáli en sínu eigin móðurmáli vilja nefnilega oft verða klisju- og yfirborðskennd og skortir þá tilfinningu og næmni sem fylgir því að tjá sig á sínu eigin móðurmáli. Einhver kallaði svona ensku ,,McDonalds-ensku“, einhvers konar útvatnaða glóbalíseraða útgáfu af heimsmálinu sem fólk hafði einkum lært af Hollívúdd-myndum og Friends-þáttum.

Þetta má ekki misskilja þannig að ég haldi á lofti einhvers konar þjóðernisrómantík þar sem að land, þjóð og tunga er þrenning sönn og ein. En meðalhófið er best og í því felst að ekkert er óeðlilegt að háskólar byggi að grunni til á kennslu og samskiptum á móðurmáli á viðkomandi stað en jafnframt sé vilji og geta til staðar til þess að setja á fót alþjóðlegar námsbrautir þar sem markhópurinn væri fólk alls staðar að úr heiminum.

Að ofan eru talin nokkrar smásmugulegar athugasemdir en þrátt fyrir þær þá skal það hér enn og aftur ítrekað að á heildina litið er Opið land orð í tíma töluð.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s