Pablo Neruda: A passion for life eftir Adam Feinstein

Það sem Halldór Laxness er fyrir Íslendingum það er Pablo Neruda fyrir Chilebúum. Þegar maður dvelur í nokkra mánuði í Chile er því ekki annað hægt en að fara krókaleið að chileanskri þjóðarsál með því að kynna sér ævi og störf þessa merka skálds.Þess vegna keypti ég mér heilmikinn doðrant á fullt af peningum (bækur í Chile eru hryllilega dýrar – allt annað er meira og minna hræbillegt) í einni af örfáum bókabúðum Santiago sem selur bækur á ensku. Þetta er ævisaga skáldsins, skrifuð af Englendingnum Adam Feinstein og er sögð vera sú ítarlegasta og besta sem komið hefur út á ensku (þá afar óhlutdrægu lýsingu má alla vega lesa á bókarkápunni).Þrátt fyrir nokkrar tilraunir get ég reyndar ekki sagt að mér hafi enn tekist að heillast af skáldskap Neruda. Raunar finnst mér hann hundleiðinlegur og óáhugaverður en sú góða og gilda afsökun kann að vera á því að þýðingarnar séu lélegar. Eins þykir mér lítt til karaktersins Neruda koma. Hann er gríðarlegur hræsnari, er kommúnisti en lifir þó sjálfur í vellystingum, hann deilir hart á fasisma en ver þó með báli og brandi voðaverk eigin átrúðnaðargoða í Sovétinu, jafnvel löngu eftir að allir þeirra glæpir eru öllum ljósir og síðan er hann óþolandi eiginhagsmunaseggur og karlfauskur.

En því verður þó ekki neitað að það er sjarmi yfir honum og 69 ára líf hans var svo ævintýraríkt að stundum er eins og það sé handrit eftir Ian Fleming. Hann hefur líf sitt í litlum bæ í suðurhluta Chile, móðurlaus, alinn upp af stjúpmóður og lestarstjóranum föður hans sem tekur hann með sér í lestarferðir þegar vel liggur á. Ungur og blautur á bak við eyrun flytur hann svo til höfuðborgarinnar Santiago, búinn að bregðast draumum föður síns og gerast skáld og þar með ónytjungur. Þar tekur við bóhematilvera og umgengni við skáld og listamenn borgarinnar í sárri fátækt en mikilli gleði. Sem sagt ósvikið bóhemalíf. Helsti ávöxtur þessa tíma er sjálfsagt frægasta verk hans Tuttugu ástarljóð og einn örvæntingarsöngur.

En hann langar lengra. Hann kemst að hjá utanríkisþjónustunni og er ekki beint sendur á næsta bæ. Hann er nefnilega sendur til Búrma, af öllum stöðu. Fólk getur reynt að ímynda sér hversu framandi það var að halda í sínu fyrstu utanferð alla leið þangað á þriðja áratug síðustu aldar fyrir ungan og óharðnaðan mann. Næstu árin var hann diplómat þar sem nú heitir Sri Lanka, síðan í Indónesíu og Singapúr. Hann lenti í ástarsambandi við sannkallaða ,,femme-fatale“, heimakonu í Búrma, og síðar hitti hann stúlku af hollensku nýlenduherraættum í Indónesíu og giftist henni.

Hann snýr aftur til Chile að lokinni áralangri útlegð en lifir þar við sult og seyru og vill brátt komast út aftur. Í þetta sinn starfar hann fyrir land sitt í Búenos Aires, Barselóna og loks Madríd. Hann vingst á þessum tíma við Lorca og fleiri stórmenni, verður ástfanginn af argentínskri listakonu, tuttugu árum eldri en hann og kemst að lokum upp á kant við Franco og þarf að yfirgefa landið. Næsta stopp er Frakkland þar sem að hann fær m.a. það hlutverk að flytja spænska flóttamenn úr borgarastyrjöldinni til Chile. Á þessum tíma fer smám saman að vakna með honum pólitísk meðvitund og hjarta hans fer að slá allhressilega til vinstri.

En um leið og hann er sjálfum sér til sóma í starfi sínu gegn Francó og fasismanum þá verður hanan sjálfur sér til skammar þegar að hann tekur þátt í því að afneita og hæða franska skáldið André Gide sem hafði snúist gegn kommúnismanum eftir að hafa orðið vitni að hryllilegum gerðum stjórnvaldanna í Moskvu. Það var allt þaggað niður og Gide lenti í aðferð sem best má lýsa sem grófu einelti af hendi fjölda annarra vinstri sinnaðra höfunda. Klárlega skammarblettur. Þetta hámarkaðist á Valencia-ráðstefnunni 1937. Í bókinni er sérstaklega tekið fram að meira að segja fulltrúi frá Íslandi hafi sótt ráðstefnuna. Var það Laxness? Og hvað fannst honum þá? Væri gaman að komast að því. Hannes getur ekki hafa sleppt því að minnast á það. Fletti því upp í næstu Íslandsferð.

Síðan er það Mexíkó. Trotsky er drepinn þar á meðan veru hans stendur og Neruda var sakaður um að hjálpa einum samsærismanna að morði hans að fá hæli í Chile. Seinna á víst reyndar að hafa komið í ljós að viðkomandi hafði lítið með morðið að gera. Neruda fær fregnir af láti dóttur sinnar frá fyrra hjónabandi til Mexíkó.Svo snýr hann aftur heim, leggst í nokkur ferðalög um álfuna sína og skrifar um það mörg og mikil ljóð. Hann er þarna löngu orðinn hardkor stalínisti og gengur í Kommúnistaflokkinn. 1945 er hann kosinn öldungadeildarþingmaður fyrir flokkinn. 1948 breytist hins vegar pólitískt andrúmsloft í Chile. Hálfeinræðiskennd stjórn tekur við sem bannar Kommúnistaflokkinn og hendir mörgum kommúnistum í steininn sem samsærismönnum gegn ríkinu. Þarna hefst ef til vill æsilegasti kaflinn í lífi Neruda, af þó mörgum æsilegum.

Neruda fer nefnilega í felur til að forðast handtöku. Lengi vel heldur hann til í eigin landi, fyrst í Santiago og Valparaíso og síðar í strjálli byggðum sunnar í landinu. En síðan tekur við æsileg og hættileg flóttaferð yfir Andesfjallgarðinn og til Argentínu. Allt tekst þetta en þó þarf hann áfram að hafa varann á sér í Argentínu til að verða ekki framseldur til baka. Neruda flýr til Evrópu með því að nota passa vinar síns. Þar kemur annar vinur hans og nafni raunar, Pablo Picasso, honum til hjálpar og tryggir að Neruda fái tímabundið hæli í Frakklandi. Sökum tímabundna dvalarleyfisins þurfti hann alltaf að yfirgefa Frakkland öðru hvoru og ferðaðist vítt og breytt um Evrópu og raunar til Indlands, Kína og Sovétríkjanna líka.Síðan er það Mexíkó þar sem hann hittir þriðju konuna sína. Fyrst fór samband þeirra leynt, enda Neruda enn í sambandi við konu nr. 2. Það dvöldu meðal annars saman um nokkurra mánaða skeið á Capri við Ítalíustrendur og sú vera varð innblástur í kvikmyndina Il Postino sem vinsæl varð hér fyrir nokkrum árum. Myndin er skáldverk og samskipti póstsins og Neruda áttu sér ekki stað í raunveruleikanum. En Neruda var sem sagt þarna á þessum tíma.

Neruda snýr svo aftur til Chile eftir margra ára útlegð og heldur áfram pólitískum afskiptum sínum sem hámarkast í forsetaframboði 1970. Síðar dró hann sig út úr því framboði og lýsti stuðningi við vin sinn Allende. Hann hélt áfram að dveljast langdvölum erlendis og var þar raunar yfirleitt meiri part ársins og stundum bróðurpart ársins, og þá fyrst og fremst í Evrópu. Áfram koma ljóðabækur hans út og smám saman verður hann að grand, old man í chileönsku þjóðlífi.Hámarki nær auðvitað svo frægð hans þegar að hann hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1971.

Allende er kjörinn forseti 1970 og Neruda biður hann að skipa sig sendiherra í París. Það verður úr og þar er hann þangað til krabbamein er farið að gera honum lífið leitt tveimur árum síðar. Hann kemur heim til að deyja og hverfur síðan úr þessari veröld við dramatískar kringumstæður í sjúkrarúmi aðeins tveimur vikum eftir blóðuga herbyltingu skúrksins Pinochets og hans ljóta liðs.

Áfram lifa verk hans og minningu hans er vel haldið á lofti í Chile. Bókin er mjög fín og skemmtileg. Feinstein er ófeiminn við að gagnrýna það sem ámælisvert er í fari Neruda en lýsir yfir aðdáun á öðru, fyrst og fremst skáldskapnum. Fín bók um ótrúlega ævintýralegt líf ljóðskálds.

***

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s