Velkominn til Bagdad

Aðdáendur svokallaðra reportage-bókmennta hafa ekki haft um auðugan garð að gresja í íslensku bókaúrvali, hvað þá þeir sem áhuga hafa á frásögnum af atburðum líðandi stundar úti í hinum stóra heimi. Þess vegna er fagnaðarefni í hvert af þeim fáu skiptum sem eitthvað í þá áttina kemur út eftir íslenskan höfund. Ein slík bóka kom út fyrir síðustu jól, Velkominn til Bagdad eftir blaðamanninn Davíð Loga Sigurðsson.

Davíð Logi Sigurðsson hefur um árabil verið ánægjuleg undantekning frá því annars metnaðar- og sinnuleysi þegar kemur að umfjöllun íslenskra fjölmiðla um alþjóðamál. Davíð Logi hefur, ólíkt flestum kollegum sínum og löndum, ekki litið þannig á að starf blaðamanns á erlendum fréttadeildum felist í því einu að snúa skeytum frá fréttaveitum úti í heimi yfir á hráa íslensku. Davíð Logi hefur þvert á móti lagt mikla vinnu og metnað í það að sækja sínar fréttir sjálfur, bæði með því að afla sér viðmælenda og með því að leggja sjálfur í ferðir út í heim. Einnig hefur hann sýnt áhuga sinn á alþjóðasviðinu á annan hátt með því að starfa tímabundið á ýmsum suðupunktum veraldarinnar, fyrst í Kosovó og nú í Líbanon.

Það grípur mann því nokkur eftirvænting þegar maður opnar bók hans þar sem dregin er saman reynsla og sýn hans frá heimsóknum til ýmissa af helstu átakasvæðum veraldar. Yfirlýst markmið bókarinnar er að láta hana hverfast í kringum stríðið gegn hryðjuverkum og í þeim tilgangi er dregin upp mynd af Írak, Afganistan, Guantanamo-fangabúðunum, flóttamönnum í Jórdaníu og raunar með viðkomu í Kosovó líka. 

Davíð Logi sníður sér blessunarlega stakk eftir vexti í þessari bók. Hann segist sjálfur hafa forðast svokallaða ,,hótel-blaðamennsku“ en einmitt slík leiðindafrásagnaraðferð einkenndi skrif margra þeirra blaðamanna sem fyrstir voru á vettvang í innrásinni á Írak 2003. Besta dæmið (eða kannski versta, öllu heldur) er bók Åsne Seierstad 101 dagur í Bagdad sem einmitt bregður helst ljósi á það hvernig er að vera blaðamaður í hótelherbergi meðan sprengjur falla fyrir utan. Ekki mjög spennandi til lengdar og helst til sjálfhverft og virðist snúas um það fyrst og fremst að geta hreykt sér af því að hafa ,,verið á staðnum“ þegar að allt gerðist.

Í stað svona sjálfsupphafinna verkefna ákveður Davíð Logi að halda á slóðir þar sem hann á meiri möguleika á því að ná heildstæðri mynd af ástandinu án þess að leggja líf sitt í hættu. Hann gerir sér, réttilega, grein fyrir því að meira má líklega fá út úr viðtölum við íraska flóttamenn í Jórdaníu um ástandið í Írak en með því að fela sig fyrir bombum á hóteli í Bagdad og komast þar hvorki lönd né strönd. 

Höfundur leggur sig fram um það að hlusta eftir ,,rödd götunnar“, heyra í fólkinu sem atburðir alþjóðastjórnmálanna bitna mest á. Margt athyglisvert kemur þar fram. Því miður staðfestist það aftur og aftur í þessari bók hversu almennir borgarar hafa þótt að líða svakalega fyrir þá ákvörðun firrtra stjórnvalda í Bandaríkjunum að ákveða að hefna sín handahófskennt á hverjum sem fyrir verður vegna árásanna á Tvíburaturnanna hér um árið. Framtíðarsýnin er því miður lituð fremur svörtum litum enda auðveldara að brjóta niður en að byggja upp aftur.

Velkominn til Bagdad er um margt afar fróðleg og vel skrifuð bók. Kaflarnir eru að vísu misgóðir og það má vissulega spyrja sig hvort ekki hafi verið nokkuð hæpið að taka Kosovó-kaflann með, fyrst samnefnari bókarinnar átti að vera stríðið gegn hryðjuverkum. Davíð Logi færir vissulega rök fyrir þeirri tengingu sinni en hún er óneitanlega nokkuð langsótt. Afganistan-hlutinn er hins vegar bestur.

Annar galli á bókinni er allar þær almennu upplýsingar um stríðsslóðirnar sem stundum bera meira merkis fyrirlestrar í háskóla eða texta í kennslubók en bókar þar sem frásögnin ætti að fá að njóta sín. Ég leyfi mér að halda því fram að hafi fólk á annað borð áhuga á efni þessarar bókar sé það þegar búið nauðsynlegri þekkingu um einfaldar staðreyndir ,,söguslóðanna“. 

Annars er ástæða til að þakka Davíð Loga fyrir þessa ágætu bók þar sem dregnar eru saman frásagnir af verkefnum sem endurspegla fyrirmyndarvinnubrögð sem kollegar Davíðs Loga ættu að taka sér til fyrirmyndar og hreinlega láta sér að kenningu verða.

**1/2

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s