What I Talk About When I Talk About Running eftir Haruki Murakami

Það er þannig með mörg hobbí að þau leiða til þess að utan um þau myndast hálfgerður sérheimur innvígðra. Fólk innan þess sérheims talar sína eigin mállýsku um hluti sem flestum öðrum eru illskiljanlegir og á einhvern hátt myndast ákveðin bönd um þennan eina sameiginlega þráð í lífi þeirra sem þátt taka. Þannig er þetta þegar að tveir eða fleiri fluguveiðimenn koma saman eða prjónafíklar, bíladellulið, Arsenal-aðdáendur, fjallageitur, bíónördar – og hlauparar.

Ég er tiltölulega nýgenginn til liðs við síðastnefnda hópinn. Fyrir hálfu öðru ári síðan tók ég þá fífldjörfu ákvörðun (að því er mér fannst þá) að hlaupa heilt maraþon hér í Kaupmannahöfn. Undirbúningur þess leiddi til þess að taka þurfti hlutina ögn alvarlegar en áður, en lengdarmetið mitt var, þegar þarna var komið sögu, það sem nam sjö kílómetra skemmtiskokki.

Allt í einu voru hlutir sem manni fannst fyndnir hjá hlaupurum sem virtust taka hreyfingu sína fullalvarlega farnir að tilheyra nauðsynjum hjá manni sjálfum. Maður uppgötvaði til dæmis fljótt að líklega þyrfti maður að skipta íþróttaskónum, sem höfðu helst nýst í málningarvinnu árin þar á undan, út fyrir aðra betri. Maður uppgötvaði líka að það skipti í alvörunni máli að vera ekki bara í bómullarsokkunum sínum úr H&M. Það svakalegasta var samt kannski að uppgötva að það skipti máli í langhlaupum að vera í sérstökum bol og buxum til að brenna ekki innan á lærunum og – haldið ykkur nú – fá ekki blóðrisa geirvörtur!

Þetta, auk alls þess undirbúnings með tilheyrandi (geirvörtu)blóði, svita og tárum, hefur gert það að verkum að við sem höfum lagt þetta á okkur eigum það til að skilja aðra útundan í samræðum við aðra sem ekki hafa lagt svona bjánaskap á líkamann sinn. Hinir óreyndu missa fljótt áhugann þegar maður fer að „bonda“ um dæmigerða álagið framan á sköflungnum og bakvið hnéð, hlaupaskó sem má bara fara 1000 kílómetra á, kolvetnisríka matinn dagana fyrir hlaup og ýmislegt álíka áhugavert.

Skal engan undra að fólk leiti almennt burt frá manni í skemmtilegri samræður í kaffiboðum.

Ég minnist á þetta allt saman vegna þess að nýverið las ég bók eftir einn af uppáhaldsrithöfundum mínum, Haruki Murakami. Bókina var ég búinn að hlakka til að lesa alveg síðan ég vissi að von var á henni í enskri þýðingu. Ég hlakka reyndar alltaf til að lesa eitthvað nýtt eftir Murakami. En nú hafði ég tvöfalt tilefni. Í bókinni What I Talk About When I Talk About Running er umfjöllunarefnið nefnilega – ó, jú, hlaup.

Hinn sympatíski en jafnframt hlédrægi Murakami gefur lesendum sínum fágætt tækifæri til að litast yfir ævibrot höfundarins sjálfs, það sem hverfist um þann þátt lífsins þegar að hann hóf að hlaupa langhlaup í upphafi níunda áratugarins og allt fram að ritunartíma bókarinnar (2007). Raunar er þetta nákvæmlega sama tímabil og markar feril hans sem rithöfundar. Murakami tengir þetta tvennt meira að segja í bókinni og segist aldrei hafa orðið rithöfundur nema hann hefði líka farið að hlaupa.

Þetta var ánægjuleg lesning. Murakami birtist manni sem sá indæli náungi, sem manni hefur reyndar alltaf virst hann vera, en einnig sem maður sem gæddur er gríðarlegum sjálfsaga. Stundum eiginlega ógnvænlega miklum. Það sést auðvitað ekki síst á hlaupaáráttu hans en frá því að hann hóf sín hlaup þá hefur hann sett sér þá reglu að hlaupa í það minnsta eitt maraþon-hlaup á ári. Ég er þegar orðinn á eftir honum, sleppti þessu ári úr. En stefni á það næsta.

Bókaormurinn og hlaupafanatíkerinn ég æstu hvor annan upp við lestur þessarar bókar. Kynni eru endurnýjuð við klassísk einkenni sannrar Murakami-bókar, honum tekst meira að segja að koma inn minnum sem flestir kannast við úr skáldsögum hans. Til dæmis köttum. Þeir eru þarna til staðar.

En síðan fær hlaupafanatíkerinn líka sitthvað gott að maula á. Gott ef maður varð ekki bara fyrir inspírasjón og jafnvel hvatningu á köflum. Ég held það skrifist alla vega að talsverðu leyti á innspýtingu úr bókinni að ég gerðist staðráðinn í því að skrá mig í hálfmaraþon síðustu helgina í september úti á Amager. Nú er ég samt hættur við. Ekki alveg kominn á fanatíska hlaupastigið hans Murakamis. Eða kannski mig skorti sjálfsaga. Fyrri skýringin á við en seinni skýringin samt enn frekar.

What I Talk About When I Talk About Running hefur almennt fengið slæma dóma hjá krítíkerum hjá stóru blöðunum úti í heimi. Hún þykir óáhugaverð og flatneskjuleg og alls ekki hinum frábæra rithöfundi sæmandi. Ein undantekning er þó á. Hún fékk glimrandi dóma í Guardian. En ritdómarinn þar er… jú jú, hann er hlaupari. Hann sá ekkert nema allt gott við allar þessar pedagógísku lýsingar höfundarins af langhlaupum sínum með tilheyrandi uppgefnum lokatímum, meiðslasögum, æfingaáætlunum og hlaupatónlist í heyrnartólum. Hann meira að segja vildi meira!

Ekki þarf að taka það fram að ég er með Guardian í liði. Mér fannst What I Talk About When I Talk About Running frábær. En hver tekur svo sem mark á mönnum sem líta á bókmenntaverk sem tilvalið pepp fyrir þátttöku í hálfmaraþoni?

Fáir, vonandi. 

***

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s