Islamister og naivister eftir Karen Jespersen og Ralf Pittelkow

islamister-og-naivisterÞað er ágætis siður að kynna sér rök og málflutning þeirra sem maður er ósammála. Þess vegna finnst mér sjálfsagt mál að lesa þær bækur og þá höfunda sem mest eru kenndir við andstöðu við fjölmenningu og þótt hafa tala fyrir sjónarmiðum sem sumum finnst litast af svokallaðri islamófóbíu. Ég las til dæmis ævisögu/pólitískt testamenti Ayaan Hirsi Ali í lok síðasta árs og varð að viðurkenna að ýmislegt í þeirri bók var ágætlega rökstutt og ég gat ekki neitað því að í vissum skilningi undrast maður það ekki að Hirsi Ali sé ekki sérlega umhugað um þau trúarbrögð eða það mennignarsamfélag sem hún var alin upp í. 

Því fannst mér líka sjálfsagt að kynna mér bókina Islamister og naivister eftir hjónin Karen Jespersen og Ralf Pittelkow. Sú bók hefur vakið mikla athygli, ekki bara hér í Danmörku heldur líka á Íslandi eftir að hún var þýdd fyrir nokkrum mánuðum síðan og vakti hrifningi ýmissa Íslendinga sem í henni þóttust sannleikann höndum hafa gripið um raunverulega vá sem fylgdi auknum áhrifum herskárra Múslima í Evrópu.

Skemmst er frá því að segja að sú tilfinning sem helst grípur mann eftir lestur bókarinnar sé aðallega sá að reynast sjálfur að varast í dómi um hana að fella sömu innihaldslausu sleggjudómana og stríðsópin og þau sem halda bókinni uppi.

Undirtitill bókarinnar er ,,Et anklageskrift“. Það hefði vissulega ekki selt eins vel að hafa undirtitilinn ,,Óhróðursrit“ en þó þykir mér það nær lagi.

Bókin er auðvitað ekki fræðirit fyrir fimmaura enda svo sem sjálfsagt heldur ekki markmiðið. Þetta er jú pólitískt rit sem lýsir skoðunum höfundanna. En jafnvel sem slíkt uppfyllir það ekki lágmarkskröfur um það að heildarargúmentið sé samkvæmt sjálfu sér. Höfundarnir halda því þannig t.d. fram öðru hvoru að þeir eigi alls ekki við alla Múslima þegar þeir tala um hættuna af Islamisma. Samt sem áður grauta þau öllu saman þegar kemur að því að magna upp ótta og þá verða Múslimar, hófsamir sem ofstækisfullir, að einu og sama menginu.

Grímulaust er til dæmis dregin upp hættan af auknum flutningi fólks til Evrópu frá löndum þar sem Islam er ráðandi trú. Sama gildir um hættuna sem sögð er fylgja því að einhver tali um að Evrópa og arabískur menningarheimur nálgist á einhvern hátt. Því er mjög haldið á lofti að ekki bara ofstækisfullir Múslimar séu hættulegir, hófsamir Múslimar séu það ekkert síður. Þeir séu bara hófsamir í þykjustunni. 

Verstu pólitíkusar allra eru þeir sem bjóða upp á heildarpakka og skyndilausnir og fletja samfélagið út í örfáa steríótýpíska hópa. Þeir kallast popúlistar. Slíkir pólitíkusar eru Ralf Pittelkow og Karen Jespersen. Í stað þess að takast á við flókinn vanda, sem málefni innflytjenda vissulega eru, kjósa þau að fara þá leið að uppnefna þann hóp allan sem mest áberandi er og ofnota hugtakið ,,Islamister“ og þrengja það og víkka út, bara eftir því hvað hentar í hverju dæmi fyrir sig. ,,Islamister“ eru þannig allt frá þeim sem vilja sprengja sig í loft upp í neðanjarðarlestum og allt til þeirra sem vilja frekar horfa á sjónvarpið frá heimalandi sínu gegnum parabólu en Ólsen-bandið á DR einum (sjálfsagt er ég þá ,,Islamisti“ líka, horfandi á kreppufréttir á RÚV-vefnum í stað dagskrárinnar í danska imbanum).

Sömu tilhneigingar gætir í hinni uppnefningunni á þeim sem kallaðir eru ,,naivister“. Víð skilgreining á ,,naivister“ gæti einfaldlega verið ,,allir þeir sem eru ósammála Karen Jespersen og Ralf Pittelkow í innflytjendadebbatnum“. Þrengri skilgreinig er eins og í tilviki ,,Islamister“-skilgreiningarinnar: eftir behag (svo maður sletti nú smá á dönsku). Naivister eru þannig allir þeir sem ekki trúa því að Íslamismi lúri alls staðar undir hjá hverjum Múslima og allir þeir sem ekki trúa því að leiðin fram á við sé sú að trúa alltaf öllu því versta upp á Múslima. Naívístarnir í skilgreiningu höfundanna eru annars ansi margir, allt frá dönskum últra-vinstri mönnum til Javier Solana, Tony Blair, Kofi Annan og Uffe Elleman-Jensen.

Auðvitað er enginn að segja að Íslamismi sé góður eða yndislegur. Ekki segi ég það alla vega. Hann er hryllilegur og mannfjandsamlegur. En er þar með sagt að allir þeir sem ekki vilja fylgja sömu ferköntuðu hugsun og Ralf Pittelkow og Karen Jespersen séu sjálfkrafa naívistar? Er þar með sagt að allir sem ekki eru já-bræður höfunda eigi sjálfkrafa skilið að lenda í flokki barnalega þenkjandi fólks, afneitunarsinna eða jafnvel meðreiðarsveina illra afla?

Það er auðvitað voðalega auðvelt að afgreiða mál bara þannig að nota upphrópanir, einfaldanir og skipta fólki í grófa flokka. Fólk með slíka tendensa vinnur oft stundarsigra. En hvenær hefur svoleiðis fólk raunverulega leyst mál til lengri tíma litið?

Það er þarft verk og gott að skrifa bók um hina ömurlegu og fasísku afturhaldshyggju sem Islamismi nútímans boðar hér og þar. En hún þarf þá líka að vera uppfull af góðum rökum og einkennast af yfirvegaðri umfjöllun (sem gott dæmi um slíkt má nefna Quilliam-samtökin bresku þar sem fyrrum Islamistar hafa stofnað samtök þar sem þau berjast hatrammlega gegn eigin fyrri sannfæringu og annars konar múslímskum fúntamentalisma).

Islamister og naivister tekur hins vegar ekki á vánni sem stafar af Íslamisma á nokkurn hátt. Islamister og naivister er bara einhliða áróður og samtíningur af handtíndum og einungis neikvæðum dæmum af Múslimum, hingað og þangað í belg og biðu. Það skársta sem höfundarnir virðast hafa um Múslima að segja er að þeir séu auðvitað náttúrlega ekki allir jafnslæmir. Ekkert er lagt til um það hvernig eigi að leysa vandann, nema bara eftirfarandi: ,,Þið eigið að vera eins og við!“

Það er gráglettni örlaganna hversu bók eins og Islamister og naivister er gott dæmi um það hversu öfgar sitt hvoru megin sem berjast sín á milli líkjast hvor öðrum alltaf í eðli sínu og hversu lík rökin eru. 

Islamister og naivister gagnrýnir nefnilega nákvæmlega sama afturhaldssama fúndamentalista-viðhorfið og hún leggur síðan sjálf fram til lausnar, það er:

,,Þið eigið að vera eins og við!“

Má ég þá frekar biðja um botnlausan ,,naívísma“.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s