The Plot Against America eftir Philip Roth

6a00d83452c5e369e200e5539d64de8833-800wiMikið ofsalega verður maður alltaf þakklátur og glaður þegar maður kemst í úrvals skáldskap. Ekki bara svona lala, eins og oftast, heldur virkilegt gæðastöff.

Sú tilfinning heltók mig þegar ég hlýddi á afar góðan upplestur á einu frægara verki bandaríska skáldjöfurins Philips Roth, The Plot Against America frá 2004. Strax þegar ég frétti af útkomu þessarar bókar hér um árið varð ég mjög spenntur en það þekkja það sjálfsagt fleiri en ég hvernig aðrar bækur verða í veginum og hindra lestur einstakra bóka. Þannig gæti maður lesið og lesið í 500 ár en samt ekki komist yfir brotabrot af öllu sem mann dauðlangar að renna yfir.

The Plot Against America er sjálfsagt eitt besta dæmi bókmenntanna um það sem kallað hefur verið á ensku „Alernate History“ sem gengur út á ákveðna ímyndun þar sem örlagaríkum lykilatburðum í mannkynssögunni hefur verið hnikað til þannig að til verður ný atburðarás. Eitt frægasta dæmi síðari ára er sjálfsagt Fatherland Roberts Harris, þar sem Hitler stóð uppi sem sigurvegari í Seinni heimsstyrjöldinni og atburðum á sjöunda áratugnum í Þýskalandi er lýst í framhaldi af því.

Roth tekur ekki ólíkan pól í hæðina. Hann lætur flughetjuna Charles Lindbergh vinna Roosevelt í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Það veldur því að Bandaríkin ákveða að ganga til samninga á Íslandi við Hitler um það að Bandaríkin hlutist ekki til um stríðið í Evrópu og það þýðir í raun, og kemur betur og betur á daginn, að Bandaríkin og Nasista-Þýskaland bindast bandalagi í styrjöldinni.

Áhrif þessa seitla smám saman inn í líf Gyðinganna í Roth-fjölskyldunni sem býr í Newark í Bandaríkjunum en sagan er sögð út frá sjónarhóli drengsins Philips (Philip Roth samur við sig og sitt skemmtilega sull milli síns eigin veruleika og skáldskapar). Raunar byggja ýmsar lýsingar bókarinnar á æsku Roths sjálfs og drengurinn er á sama aldri og Roth sjálfur var í stríðinu og sögusviðið er Newark æsku hans – með þeirri stóru undantekningu, auðvitað, að enginn Lindbergh náði nokkurn tíma kjöri sem Bandaríkjaforseti og þar af leiðandi fór engin atburðarás af stað, lík þeirri sem lýst er í bókinni.

Skemmst er frá því að segja að stjórn Lindberghs gerir líf Gyðinga í Bandaríkjunum sífellt erfiðara með hverjum deginum. Ekki á beinan hátt, heldur með ýmsum ísmeygilegum en stigmagnandi aðgerðum. Það fer hrollur um mann þegar maður áttar sig á samlíkingunni við samtímann þegar maður fylgir eftir aðgerðum í bókinni sem miða að því að leysa upp Gyðingahverfi  og reyna að dreifa fólkinu þaðan í önnur hverfi þar sem það hverfur í fjöldann „til þess að stuðla að samheldni þjóðarinnar“ eða eitthvað slíkt. Allt er orðað pent og alltaf er allt skreytt með flúri um að hlutirnir séu jú gerðir í þágu þeirra sem þó helst fyrir þeim verða – svo hægt sé að þvo hendur sínar af hlutunum og kenna svo fórnarlömbunum sjálfum um. Hringir þetta einhverjum bjöllum?

Eins eru lýsingar Roths á því hvernig þetta utanaðkomandi afl nær að tæra fjölskylduna upp að innan með því að sá fræjum tortryggni og með þrýstingi þar sem sá sem stendur gegn aflinu þarf að velja á milli þess að lifa samkvæmt samvisku sinni og hugsjónum annars vegar og tryggja fjölskyldu sinni bærilegt líf og öryggi hins vegar. Þá lýsir bókin því vel hversu mikið ofurefli það getur verið fyrir einstaklinga að berjast gegn retórík og sannfæringu sem gripið hefur heila þjóð. Útrásar-Ísland gæti sitthvað af bókinni lært.

Aðallega ætti þetta þó að vera holl lesning fyrir fólk sem hneykslast og talar niður til ákveðinna hópa í samfélaginu, t.d. innflytjenda, þar sem ætíð er látið í það skína að þeir geti sjálfum sér um kennt og það stutt með neikvæðum áróðri sem tekinn er úr samhengi og stöðugu niðurlægjandi tali sem að lokum bugar hópinn sem fyrir aðkastinu verður.

Við Íslendingar höfum til dæmis nýlega ekki getað á heilum okkur tekið vegna þess að kona fékk ekki að nota Visa-kortið sitt í búð á Strikinu af því að hún er Íslendingur!!! Fyrst okkur finnst þetta svona hræðilegt, þá ættum við kannski að lesa um raunverulegar ofsóknir, eins og í bók Philips Roths, og eins og í raunveruleikanum í dag þar sem innflytjendur eru níddir og litið er á þá sem annars flokks borgara sem einungis geta náð sér á strik ef þeir bara fara að haga sér eins og menn – lesist: eins og við.

Heldur ódýr úrvinnsla í bókarlok dregur verkið aðeins niður en annars eru þetta samtímabókmenntir eins og þær gerast allra bestar. Skyldulesning fyrir alla sem halda að hörmungar heimsins hámarkist í því að mega ekki nota Visa-kortið sitt í töskubúð á Strikinu. 

***1/2

Auglýsingar

Ein athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, skáldskapur

One response to “The Plot Against America eftir Philip Roth

  1. Það er afar pirrandi að komast ekki í þessa bók hérna á Íslandi, ég geri mér reglulega ferð bæði í Mál og Menningu á Laugavegi og Eymundsson í Austurstræti að athuga með hana. Ætli þetta endi ekki bara með bókasafninu…

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s