Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson

5718-175Guðjón Friðriksson hefur notið vinsældar og virðingar hjá bókelskum Íslendingum um árabil, fyrst og fremst vegna lifandi frásagna hans af völdum stórmennum genginna tíma. Margir eru mér sjálfsagt sammála um það að ákveðnum hápunkti hafi hann náð með þriggja binda verki sínu um Einar Benediktsson, geysilega góðu og skemmtilegu verki. Styrkur Guðjóns hefur fyrst og fremst falist í áðurnefndri lifandi frásögn og aðgengilegum stíl og það kannski stundum á kostnað ströngustu gæðakrafna sagnfræðanna. Sjaldnast hefur það þó komið að sök enda hafa vinsælustu verk Guðjóns fyrst og fremst verið alþýðlegar frásagnir fremur en þurr, akademísk skrif.

Fyrir þessi jól birtist hins vegar verk þar sem að Guðjón stekkur inn í nútímann og ekki bara það, heldur vill svo til að hann lendir á kafi í því máli sem allt snýst um á Íslandi þessa dagana: íslensku útrásinni. Guðjón skrifar tæplega 600 blaðsíðna sögu um þátt forseta Íslands í þessari útrás allri og heitir hún því látlausa nafni Saga af forseta.

Bókin hefur nokkuð verið gagnrýnd að undanförnu enda þykir það vægast sagt nokkur tímaskekkja að út komi bók sem mærir þátt forseta Íslands í einhverri snilldarlegri útrás án þess að þar komi fram að allt hafi í raun verið spilaborg sem að lokum sogaði alla þjóðina ofan í eitt, stórt svarthol.

Skemmst er frá því að segja að ekki er annað hægt en að taka undir margt að því sem fundið hefur verið að bókinni. Í stuttu máli er tignun bókarhöfundar á Ólafi Ragnari yfirgengileg í þessu verki, höfundurinn hefur veik tök á viðfangsefninu, þrátt fyrir langa yfirlegu, og lýsir það sér aðallega í skorti á sjálfstæðri greiningu. Þess í stað velur Guðjón þá vafasömu leið að fylgja Ólafi Ragnari og hans málstað ætíð í blindni en gera skoðanir og athafnir þeirra sem honum eru mótfallnir tortryggilegar og annarlegar.

Þetta gerir það að verkum að útilokað er að líta á Sögu af forseta sem fræðirit. Hér er um rammpólitískt rit að ræða sem heldur á lofti ákveðnum málstað og þjónar honum fyrst og fremst, en sjaldnast einhverju sem kalla mætti fræðilega yfirvegun, hvað þá hlutleysi.

Yfirhöfuð má segja að alltof áberandi sé að Guðjón hafi orð Ólafs sjálfs fyrir því hvernig hlutir gengu fyrir sig þar sem hann kemur að verki. Dæmi um það má finna strax framarlega í bókinni þar sem lýst er heimsókn Ólafs til Mexíkó. Þar á hann að hafa talað málum íslensks viðskiptalífs og síðan er í kjölfarið fullyrt að nokkur íslensk fyrirtæki hafi eftir þetta hafið starfsemi í Mexíkó. Vel má vera að þetta sé rétt en engar heimildir fylgja, hvorki um meintan fyrirtækjarekstur né þá vissu að aðkoma Ólafs hafi þarna vegið þungt. Það er því nánast ómögulegt fyrir lesandann að sannreyna fullyrðinguna. Álíka dæmi birtast síðan reglulega það sem eftir lifir bókar.

Eins má finna að því hversu oft Guðjón leitar einungis staðfestingar hjá þeim sem virðast vera Ólafi sama sinnis um atburðarásina. Fáir þeirra sem kunna að horfa á málin öðru vísi komast að í þessari bók . Þá vantar oft töluvert upp á að hlutirnir séu settir í ytra samhengi. Til að mynda er algjörlega ómögulegt fyrir lesandann að átta sig á því hversu starf þeirra alþjóðlegu þingmannasamtaka sem Ólafur tekur virkan þátt í á löngu tímabili var hafði mikið hlutfallslegt vægi undir lok kalda stríðsins. Vel má ímynda sér að  mikil álíka starfsemi í friðar- og afvopnunarmálum hafi einnig farið fram annars staðar og þar geri menn nákvæmlega sama tilkall til heiðursins um þátt sinn í endalokum kalda stríðsins.

Einn leiðinlegasti eiginleiki íslenskra frásagna er að mæla hetjudáð manna út frá því hversu mikið af heimsfrægu fólki viðkomandi hefur hitt. Því miður er Saga af forseta nokkuð lituð af þessum galla. Allt þetta, sem á útlensku kallast „neim-dropp“, verður hins vegar fyrst beinlínis fráhrindandi í kaflanum um vináttu og tengsl forsetahjónanna við ýmsa úr alþjóðlegri yfirstétt, úr heimi lista, stjórnmála og viðskipta. Sá kafli á sjálfsagt að varpa ljóma á íslensku forsetahjónin og sýna hversu voðalega merkileg þau þykja. Því miður gerir sú hégómlega upptalning þó lítið annað en að staðfesta endanlega „Séð og heyrt-væðingu“ forsetaembættisins undanfarin ár, þar sem meiri áhersla er lögð á samneyti við firrt hefðarfólk á æðstu þrepum þjóðfélagsstigans fremur en alþýðu þeirrar þjóðar sem forsetinn á þó að heita fulltrúi fyrir.

Jafn lítið geðfelld er sú mynd sem dregin er upp af forsetanum þegar klagað er um að forsetinn hafi í einhverju einu tilviki, og það fyrir mistök, ekki hlotið konunglega meðferð á flugvelli í París. Annað dæmi er sá ofsalegi stormur sem hann magnar upp í vatnsglasi yfir því að bókagjöf hans til forseta Bandaríkjanna berist ekki nógu fljótt. Báðar dæmisögurnar skilja mann, satt best að segja, aðallega eftir með þá spurningu „Hefur maðurinn ekki um neitt merkilegra að hugsa en svona auvirðilegt tildur, snobb og smáatriði?“

Eins og fyrr sagði, gætir ekki bara ákveðinnar tignunar á öllu því sem Ólafur Ragnar Grímsson kemur nálægt heldur eru allir þeir sem standa gegn honum eða eru á öndverðri skoðun einatt gerðir tortryggilegir. Meira að segja sum kaflaheitin bera það skýrt með sér hvaða viðhorf Guðjón hefur gagnvart þeim sem leyfa sér að vera Þrándur í Götu áætlana Ólafs Ragnars. Eða hvað segja menn annars um kaflaheitið „Tregða utanríkisþjónustunnar“ þar sem fjallað er um þá ótrúlegu framhleypni utanríkisþjónustunnar að telja það sitt hlutverk, en ekki forseta Íslands, að leggja línurnar í utanríkismálum þjóðarinnar?

Pólitískum andstæðingum Ólafs Ragnars eru oft gerðar upp annarlegar hvatir. Dæmi um það er þegar að Jón Baldvin Hannibalsson og Davíð Oddsson gera báðir lítið úr mikilvægi forsetaembættisins árið 1996. Þar virðist Guðjón telja útilokað að annað komi til greina en að þar sé um að ræða öfund þeirra beggja vegna þess hversu vel forsetaframboð Ólafs Ragnars fór af stað.

Svæsnara dæmi er frá árinu 2004 en allar þær deilur sem þá ríktu milli svokallaðs „heimastjórnararms“ Sjálfstæðisflokksins og Ólafs Ragnars tengir Guðjón kenningum um að Davíð Oddsson hafi haft í hyggju að svæla forsetann úr embætti til þess að komast sjálfur í húsbóndahlutverkið á Bessastöðum. Þessi tilgáta er ekki studd neinu sem kallast geta trúverðugar heimildir.

Guðjón seilist reyndar lengra í umræðunni um atburði ársins 2004 og leyfir sér meðal annars nota það, sínum málstað til framdráttar, að vitna í uppnefni Halldórs Blöndal á forsetanum sem hann lét falla í einkasamkvæmi þar sem bókarhöfundar var staddur. Nánast má telja fullvíst að Halldór hafi ekki ætlað þeim ummælum að rata opinberlega á prent enda kunna flestir að greina á milli þeirra óábyrgu orða sem að við leyfum okkur allmörg að láta falla í hópi vina og kunningja annars vegar og hins vegar þess sem við látum frá okkur fara opinberlega.

Rof á þessum trúnaði, sem flest okkar höldum í heiðri, er því fremur lúalegt bragð hjá Guðjóni, sérstaklega í ljósi þess að hann sér aldrei ástæðu til að vitna til svipaðra óábyrgra orða í einkasamtölum meðal einhverra skoðanabræðra sinna. Enginn þarf að segja mér að slík orð, til dæmis í garð Davíðs Oddssonar, hafi aldrei nokkurn tíma fallið í eyru Guðjóns Friðrikssonar.

Tilgangur Guðjóns er að draga upp mynd af einkar drífandi forseta sem mikils er metinn á alþjóðavettvangi, er þar virkur leikandi og kemur góðum hlutum til leiðar, bæði fyrir Ísland og ýmis brýn alþjóðamál. Því skal heldur ekki neitað að starf Ólafs er um margt áhugavert og aðdáunarvert. Þarna verður þó alltaf að hafa þann vara á að Saga af forseta er ekki hlutlaust fræðirit heldur saga þar sem taumur aðalpersónunnar er dreginn. En því verður samt ekkert neitað að, þrátt fyrir hrunið allt, þá var margt af þessu auðvitað gott og gilt og heldur vonandi áfram að vera það.

Hins vegar skilur bókin mann eftir með þá tilfinningu að Ólafur Ragnar hafi beitt forsetaembættinu af mun meira kappi en forsjá og að sú allt of íslenska dyggð – dugnaðurinn og framkvæmdagleðin – hafi verið í of stóru hlutverki á kostnað íhugunar, undirbúnings og þess vara sem virðulegt embætti eins og forsetaembættið á alltaf að hafa á sér.

Ólafur Ragnar er tignaður í þessari bók fyrir þann gæðastimpil sem hann veitti íslensku útrásinni. Sá gæðastimpill er nú svartur blettur á forsetaembættinu þar sem hann byggði á meðmælum með glæframennsku í fjármálastarfsemi sem ekki bara hefur lagt íslensku þjóðina hálfpartinn á hausinn heldur fjárhag fjölmargra erlendra heimila líka og farið langt með að eyðileggja orðspor Íslands erlendis um ófyrirsjáanlegan tíma. Forseti Íslands þarf á næstunni að spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann sjálfur sé sá heppilegasti til þess að endurvekja traustið á forsetaembættinu, bæði hér og erlendis. Eða af hverju á forseti Íslands að vera undanskilinn kröfum um afsögn þeirra sem ábyrgð bera mögnun þeirrar stemningar sem að lokum leiddi til íslenska efnahagshrunsins?

Því miður er það kaldhæðni örlaganna að verk Guðjóns mun, vegna skorts á sams konar vara, verða til þess að kasta ákveðinni rýrð á heiður sagnfræðingsins og rithöfundarins Guðjóns Friðrikssonar. Hann hefur þó vissulega tækifæri til þess að bæta fyrir það með því einfaldlega að læra af mistökum sínum og gera betur næst.

Bókin er auðvitað langt frá því að vera alslæm. Guðjóni tekst, sem fyrr, að búa til læsilegt verk sem rennur nokkuð vel og heldur manni ágætlega við efnið. Þrátt fyrir það er Guðjón meira að segja langt frá sínu besta þegar að þessu kemur. Það stafar, fyrst og fremst, af því að mjög fyrirsjáanleg og gagnrýnislaus nálgun höfundarins smitar yfir á stílinn sem á köflum verður af þessum sökum leiðigjarn og fer á stundum að snúast um lítið annað en upptalningu á stórkostlegum afrekum forseta Íslands.

Lengst gengur þetta í tuttugu blaðsíðna nákvæmri afritun bókarhöfundar á dagskrá nokkurra ferða forseta Íslands innanlands sem á að sýna hversu ofboðslega rækt forsetinn leggur við landa sína um allt land. Þetta á meira skylt við skýrslugerð eða bæklingagerð fyrir næstu kosningabaráttu Ólafs Ragnars en skrif manns sem þekktur er fyrir að kunna einkar vel að gæða atburði miklu lífi í texta.

Saga af forseta er um margt dágóð samantekt á forseta á miklum umbrotatímum. En gallar verksins eru það margir að ekki verður hjá því komist að lýsa því sem álíka miklu tímabundnu skipbroti höfundarins og viðgfangsefni hans að þessu sinni þarf einnig að horfast í augu við. Beggja þeirra bíður nú að endurvekja traust sem þeir hafa tímabundið glatað fyrir mikinn skort á gagnrýnu hugarfari.

*

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s