Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson

Hruni_jpg_340x600_q95Líklega tekur það yfirleitt mánuði, ár, áratugi eða jafnvel aldir að átta sig almennilega á stórviðburðum, setja þá í samhengi og greina þá til hlítar. Það á til dæmis við um íslenska efnahagshrunið. Ekki er hægt að segja að því sé almennilega lokið enn, við erum ekki enn komin í skjól og rústabjörgun stendur enn yfir. Jafnvel tala sumir stjórnmálamenn nú um það að ,,október geti komið aftur“, að því er virðist ekki alveg út í loftið. Þess vegna er eiginlega fáránlegt að halda að einhverja almennilega yfirsýn yfir hrunið megi öðlast á þessu stigi máls. Enda gengur það ekki upp.

Guðni Th. Jóhannesson gerir sér, held ég, fullkomlega grein fyrir þessu. Alla vega nefnir hann einhverja þessara annmarka í eigin athugasemdum fremst í nýútkominn bók sinni Hrunið. Tilgangur þessa rit virðist fyrst og fremst vera að þjóna hlutverki einhvers konar samantektar á atburðarás íslenska efnahagshrunsins síðast haust og fram til falls ríkisstjórnarinnar í janúarlok. Það gengur nokkuð vel upp hjá Guðna. Á þessu stigi málsins, áður en lengra er haldið, má einmitt vera að okkur sé nýtilegt að fá slíkt rit sem bara tekur stóratburði hvers dags undangengins vetrar saman.

Ritið nær líka þessu takmarki sínu, þetta er stórfínt og lipurlega skrifað yfirlit. Veldur kannski dálitlum vonbrigðum hversu fátt nýtt það leiðir fram í dagsljósið. Guðna fatast líka flugið þegar hann reynir að bregða upp myndum af vanda hrunsins fyrir valda einstaklinga. Sú sviðsetning er góð aðferð hjá þeim sem kunna til verka til þess að búa til dramatíseringu af fangandi aðstæðum einstaklinga sem eru fórnarlömd stærri atburða. En þetta lukkast ekki hjá Guðna og þess vegna hefði hann eiginlega betur átt að sleppa því. Það er þó aukaatriði.

Þegar hlutirnir eru settir í samhengi, eins og þeir eru gerðir í þessari bók, þá sér maður suma hluti í nýju ljósi. Til dæmis er það forkastanlegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn opinberar alltaf sitt innra valdasjúka eðli á ögurstundum, eins og þegar að hann útilokar samstarfsflokkinn Samfylkinguna alveg frá ferlinu helgina örlagaríku þegar að örlögum Glitnis er ráðið. Fulltrúalýðræðinu er þar algjörlega kastað fyrir borð. Það rímar ágætlega við það sem Guðni fjallaði um í síðasta stóra verki sínu, Óvinum ríkisins, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leit svo á að hann væri ríkið og að embættismenn ættu til dæmis að leyna ríkisstjórnir ákveðnum skjölum þegar að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki í stjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert breyst. Nú leit hann svo á að hann einn ætti að bjarga hlutunum. Seðlabankastjóri, forsætisráðherra og misvitur efnahagsráðgjafi hans ættu bara að redda þessu. Og þegar viðskiptaráðherra samstarfsflokksins hringdi þá var því logið að allt væri bara í stakasta lagi. Þarna strax hafði Sjálfstæðisflokkurinn rofið traustið og líkast til er það rétt hjá Guðna að þarna strax hafi stjórnin verið dauðadæmd. Allt bara snúist um að láta ryðdallinn skrönglast í höfn gegnum stórsjóinn en setja hann þá beint í úreldingu.

Það er erfitt að meta það nú hvaða greining bókarinnar reynist rétt og hver ekki. Hvað vitum við, til dæmis, á þessu stigi máls um það hvort þær björgunarleiðir sem voru valdar muni að lokum reynast til bölvunar eða blessunar? Það eina sem við kannski gerum okkur grein fyrir er hversu gríðarlega erfiðir valkostirnir í hvert skipti voru. Ákvörðun sem taka þurfti á allt niður í nokkrum mínútum er nú metin nokkrum mánuðum síðar og meira að segja þá liggur hinn eini og rétti valkostur ekki skýrt fyrir. Þó virðist ýmsu hafa verið bjargað og einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að skársti kosturinn hafi oftast verið tekinn eftir að hrunið blasti við. En allt er þetta erfitt að meta, nú þegar að öll kurl eru fjarri því komin til grafar. Dálítið eins og að meta frammistöðu fótboltaliðs eftir fyrri hálfleik þegar að maður veit að það er til lítils enda geta leikir breyst úr stórsigrum í katastrófur, og öfugt, allt fram á síðustu mínútu. Og þá eru leikirnir dæmdir út frá því. Ekki frammistöðunni fyrsta hálftímann eða þrjúkorterin.

Hrunið hans Guðna Th. Jóhannessonar er tímabundin nauðsyn. Á köflum er bókin hraðskrifuð og til marks um að áhersla hefur verið lögð á að koma henni út sem fyrst. Um það vitnar fremur hrá uppsetning (sem reyndar virkar nú kannski ágætlega eftir allt og rímar, til að mynda, vel við efnið), innsláttarvillur á við og dreif og á köflum ótímabær greining á atburðum sem fjarri því eru til lykta leiddir. Líklega verður bókin barns síns tíma, umfjöllun skrifuð í flýti í hálfleik, og vonandi koma í framtíðinni út yfirgripsmeiri, dýpri og yfirvegaðri verk um stóratburðina þar sem að höfundarnir verða í aðstöðu til að greina hlutina út frá betri heildarsýn.

Það má til dæmis vel vera að Guðni sé einn þeirra réttu manna til að sökkva sér í slíkar umfjallanir. Hann hefur sýnt það með fyrri verkum að til þess er hann mjög vel fær. Þá verður búið að flauta leikinn af og hægt að meta frammistöðu liðsins allar níutíu mínúturnar.

En það breytir því ekki að yfirlit Guðna í Hruninu er afar gott til síns brúks, eins og stendur.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s