Hvíti tígurinn eftir Aravind Adiga

Ég hef alltaf verið frekar blankur. Aldrei fátækur og aldrei skuldsettur eða liðið nokkurn einasta skort. Ég bara á lítið og eyði litlu. Svona hefur þetta verið öll mín fullorðinsár

Nema einu sinni í fimm mánuði. Þá varð ég auðugur og tilheyrði efstu stétt samfélagsins.

Það breyttist reyndar ekkert hjá mér hvað peningastöðuna varðar. Ég skipti bara um staðsetningu, flutti tímabundið til Chile og allt í einu var ég ekki lengur aumur háskólastúdent. Sami peningur og áður fleytti mér í hæstu hæðir. Fyrir helming þeirra leigutekna sem ég fékk mánaðarlega fyrir ósamþykktu holuna mína í Þingholtunum gat ég splæst í penthás í flottustu blokk bæjarins niðri við aðaltorgið. Þar opnuðu þjónar hurðina fyrir manni og pössuðu að pöpullinn af götunni kæmist ekki inn. Ég ferðaðist á fyrsta klassa í lestum og hikaði ekki við að taka leigubíla með farangur örstuttar vegalengdir enda kostnaðurinn fyrir mig nánast enginn.

Mér fannst þetta allt saman afskaplega súrrealískt. Mesti súrrealisminn fólst þó í þeirri ógnvænlegu staðreynd að þetta lúxuslíf vandist furðufljótt.

Þetta rifja ég upp vegna þess að þessi upplifun mín leitaði á stundum á mig við lestur Hvíta tígursins eftir indverska rithöfundinn Aravind Adiga. Sú bók hlaut hin virtu Booker-verðlaun í fyrra og er nú nýútkomin í íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar.

Bókin segir frá einkabílstjóranum Balram Halwai, manni sem hefur sig upp úr fátækri stétt úti á landsbyggð „Myrkursins“, þess stóra hluta Indlands sem lítið sér af þessari stórkostlegu framrás Indlands sem hann Ólafur Ragnar okkar er alltaf að tala svo voðalega mikið um. Ég sá sjálfan mig fyrir mér í aftursætinu hans Balrams.

Hann býr í litlu kakkalakkafylltu skoti í kjallara byggingarinnar þar sem Ashok, sonur yfirmanns hans, býr. Kjallarinn er fullur af mönnum sem sinna sömu störfum og Balram og þegar að gellur í kallkerfinu verður sá sem nefndur er á nafn í það skiptið að vera fljótur til að setjast upp í bíl síns húsbónda og vera tilbúinn við útgönguhliðið til að endasendast þvert og endilangt um allar koppagrundir með sinn stjóra. Allir eru alltaf á bakvakt.

Stéttskipting samfélagsins er geigvænleg og svo virðist sem að Balram ýki ekki neitt þegar að hann lýsir því að hundar efri stéttar fólksins njóti langt um betri meðferðar en þjónar þeirra.  Fólk af neðri stéttum er varla fólk. Auðvitað er skáldskapur aldrei örugg heimild um þjóðfélagsástand en þó er það stundum þannig að engu formi tekst betur að miðla sannleikanum en einmitt skáldskap. Sú mynd sem Adiga dregur upp af heimalandi sínu, út frá sjónarhorni sögumanns síns, er í það minnsta afar sannfærandi og ekki er hún fögur.

Hvíti tígurinn opnar fyrir manni Pandórubox ríkis með einn milljarð íbúa, einn sjötta mannkyns, lauslega reiknað. Hvíti tígurinn sýnir manni reyndar meira, hróplega misskiptingu mannkyns í öreiga og þá sárafáu sem eiga allt. Við öll, ég sem skrifa þetta og þið sem lesið, erum í efstu lögum seinni hópsins. Við erum fólkið í lúxusíbúðunum í lokuðu blokkunum, Balramar heimsins bíða svo í kjallaranum eftir að við köllum þá, til þjónustu reiðubúna, upp úr kakkalakkakytrunum sínum.

Þetta er þarfur lestur og góður. Ég er þó ekki það heillaður af Hvíta tígurnum sem listaverki að ég kaupi það fyrir fimmaura að hvergi innan hins engilsaxneska málsvæðis hins breska heimsveldis (svo ég miði nú við umráðasvæði Booker-verðlaunanna) hafi verið skrifuð enn betri bók en þessi í fyrra.

Hvíti tígurinn er vissulega gott verk, jafnvel frábært, en framúrskarandi er það nú samt kannski ekki og ég myndi svona frekar veðja á að hún verði flokkuð með minni merkilegum verðlaunabókum þegar að fram líða stundir. Styrkur hennar felst enda fyrst og fremst í umfjöllunarefninu sem hún tekur fyrir en kannski síður í snilldarlegum eða nýstárlegum skáldskap.

Þýðing Ísaks Harðarsonar virtist mér hnökralaus og góð. Það eina sem ég kannski skil aldrei alveg til fullnustu er þegar að þýðendur sem þýða úr ensku fara að nota þéranir í íslenskum þýðingum sínum til að ljá einstaka samtölum ákveðinn blæ, fyrirbæri sem annars er löngu úrelt úr íslensku tal- og skrifmáli og fyrirfinnst í raun að jafnlitlu leyti í ensku. Ekki athugasemd beinlínis hjá mér, bara örlítil vangavelta.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, skáldskapur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s