Vigdís eftir Pál Valsson

Vigdís var heilög manneskja. Alla vega í mínum huga og sjálfsagt fleira æskufólks sem fæddist á ofanverðum áttunda áratugnum og ólst upp við það sem sjálfsagðan hlut, en ekki heimsviðburð, að kona væri þjóðhöfðingi Íslands. Ég man eftir heillangri ritgerð sem ég skrifaði um hana á lokaári í grunnskóla, heilaþveginn þegn í einræðisríki hefði ekki getað gert betur í óbeisluðu lofi en ég í þeirri lofgjörð. Einhvern veginn var ekki bara Vigdís gegnheil og góð manneskja í huga óharðnaðs unglingsins, forsetaembættið hafði einnig yfir sér einhverja helgi.

Mikið hefur það nú breyst.

Hugmyndirnar um Vigdísi voru auðvitað markaðar ómótuðum barnshug en sögðu einnig sögu um annan tíma og forseta sem leit á embættið sem sameiningartákn og gætir þess jafnvel enn að tala á þeim nótum að skoðanir hennar séu ekki það róttækar í nokkra átt að það geti orðið til sundraðs viðhorfs meðal fyrrverandi þegna hennar. Það er um margt virðingarverð stefna hjá Vigdísi Finnbogadóttur.

Það er kannski frekja að segja að saga Vigdísar Finnbogadóttur geti ekki verið hennar einkamál til langframa. En það er samt nokkuð til í slíkri fullyrðingu. Á einhvern hátt kom hún okkur öllum við um sextán ára skeið og sem fyrrum forseti gegnir hún enn táknrænu hlutverki sem nokkurs konar landsmóðir, að minnsta kosti í huga margra. Það er því í meira lagi þarft verk hjá Páli Valssyni að segja okkur mótunar- og þroskasögu Vigdísar Finnbogadóttur.

Okkur birtist sterk kona, um margt á undan sinni samtíð hvað varðar sjálfstæði, menntun erlendis, einkahagi, starfsframa, tengsl við annað fólk og þátttöku á sviðum þar sem konur voru ekki áberandi fyrir. Okkur birtist líka harmsaga; bróðurmissir, fósturlát, skilnaður, barátta við krabbamein. Allt mótar það, dýpkar og þroskar manneskjuna og síðar forsetann Vigdísi.

Eins og oft vill verða í ævisögum frægra einstaklinga er frægðarskeiðið sjálft síst áhugaverði hluti bókarinnar. Ég get tekið undir með þeim sem hnýtt hafa örlítið í að Páll gerist ekki nógu ágengur á Vigdísi að tjá sig um persónulega upplifun þess tímabils. En kannski gerir það ekki svo ýkja mikið til vegna þess að mótunarárin eru hvort eð er alltaf athyglisverðasti hluti svona bóka. Og þar gerir Páll hlutum vel skil.

Við kynnumst því þar hvernig sú Vigdís sem sigraði í forsetakosningum 1980 varð smám saman til. Hvernig hún barðist áfram í námi í Grenoble rétt eftir stríð, full efasemda um eigið ágæti (þó mann gruni reyndar að bréfin frá þeim tíma séu örlítið lituð uppgerðarhógværð til að kalla á hvatningu og hól, eins og stundum gerist á því lífsskeiði), flytur síðar til Danmerkur og Svíþjóðar eltandi drauminn um fjölskyldulíf með eiginmanni sínum. Snýr svo heim og reynir að finna sér hlutverk sem heimsborgari í eyjasamfélagi á mörkum hins byggilega.

Ævisagan Páls Valssonar er vandað verk og gott. Ef finna má eitthvað að því þá er það í raun óumflýjanlegt vandamál höfunda ,,opinberra“ ævisagna (eða hvað annað á maður að kalla ,,authorised“ ævisögur á góðri íslensku). Í skiptum fyrir einkaaðgang sem viðfangsefnið veitir höfundinum að sjálfum sér, fer viðfangsefnið yfirleitt fram á að verkið sé skrifað í sínum anda. Þess vegna er óalgengt að rekast á ævisögur, skrifaðar í samvinnu við viðfangsefnið, sem snúast gegn því eða þar sem höfundurinn leyfir sér harðskeytta gagnrýni.

Þetta kemur raunar ekki nema að mjög litlu leyti niður á verki Páls Valssonar, sér í lagi vegna þess að oftar en ekki reynir hann að varpa ljósi á hvað fyrir þeim kynni að hafa vakað sem gagnrýndu Vigdísi fyrir eitt og annað. En kannski hefði hann ekki þurft að hafa við eins mikla málsvörn fyrir hönd Vigdísar þegar að hann fjallar um Vigdísi á lokaárum forsetaferils síns. t.d. þegar hann fjallar um gagnrýni Alþýðublaðsins undir lok forsetatíðar hennar.

Það var nefnilega orðin nokkuð útbreidd skoðun á síðasta kjörtímabili Vigdísar að hún væri orðin einum of samgróin embætti sínu og ætti jafnvel til valdhroka og að móðgast óþarflega mikið yfir málefnalegri gagnrýni sem að henni var beint. Vigdís viðurkennir raunar sjálf í bókinni að það hafi verið mistök að bjóða sig fram síðasta kjörtímabilið. Undir það má fyllilega taka. Forsetar eiga ekki að sitja í sextán ár, það spillir huga jafnvel besta fólks.

Auk þess var þjóðfélag árins 1996 allt annað en þjóðfélag ársins 1980. Kannski hafði það orðið ljóst hin síðari ár að Vigdís var barn síns tíma. Nýjar hugmyndir voru komnar fram, kynslóð hennar hafði mótast mjög af sjálfstæðinu 1944, eins og eðlilegt var. Yngra fólk með aðra sýn á stöðu og sjálfsmynd Íslands var smám saman að gera sig gildandi. Fólk vildi auk þess annars konar forseta (hvort það, út af fyrir sig, var heillaþróun er önnur saga).

Ævisagan verður hér eftir grundvallarverk um einn merkasta Íslending síðustu áratuga. Sjálfsagt verður hún þýdd á þónokkur erlend mál enda er saga fyrsta kvenkyns lýðræðislega kjörins þjóðhöfðingja heims ekkert einkamál Íslendinga. Síðar munu kannski líta dagsins ljós aðrar bækur um Vigdísi sem óháðari eru viðfangsefninu. En rit, eins og það sem Páll Valsson hefur sent frá sér, er þeim nauðsynlegt sem nokkurs konar höfuðstóll.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s