Chicago eftir Alaa Al-Aswany

Ákveðinn flokkur skáldsagna, sem náð hefur heimsathygli á undanförnum árum, einkennist af því að höfundar þeirra koma frá nokkrum helstu átakasvæðum heimsins og frásagnir þeirra lýsa ástandinu frá þeirra sjónarhóli. Má þar nefna Flugdrekahlaupara Khaleds Hosseini, Hvíta tígurinn, nýlega Booker-verðlaunabók Aravinds Adiga, og loks Yacoubian-byggingu egypska rithöfundarins Alaa al-Aswany.

Sagt er að þessar bækur gefi okkur hina ósviknu sýn á það sem raunverulega á sér stað innan menningarheima þessara höfunda og að það sé helsti kostur þeirra. Sé örlítið betur að gáð finnur maður hins vegar ýmislegt annað sameiginlegt sem meira tengist markaðssetningu en vöru sem komin er beint af kúnni.

Þannig eiga allir höfundarnir það sameiginlegt, al-Aswany þó kannski síst, að vera ekki nema hálftengdir heimalöndum sínum. Hosseini fluttist á unglingsaldri frá Afganistan til Bandaríkjanna og hefur búið þar síðan og sömu sögu er að segja um Adiga sem fluttist á unglingsárum frá Indlandi til Ástralíu með foreldrum sínum, fólki af æðstu stétt, og stundaði síðar nám í Bandaríkjunum.

Með þessu er ekki verið að varpa rýrð á þeirra bakgrunn eða að segja að þeir séu „minni“ Indverjar eða Afganar vegna þess að þeir hafa ekki lifað og hrærst meðal þjóða sinna óslitið frá fæðingu. En það er nú samt þannig að það er ekki sama að horfa á hlutina úr fjarlægð út frá persónulegum tengslum og löngu liðnum minningum annars vegar og hins vegar að vera á staðnum alla tíð og lifa og hrærast meðal fólks.

Það hlýtur alla vega að teljast gagnlegt að vita hvert samband maður hefur við þjóð sína. Segjum til dæmis að Íslendingur, sem ekki hefur búið á landinu frá unglingsárum sínum um miðjan níunda áratuginn, myndi skrifa bók um kreppuna en þess væri hvergi getið í markaðssetningu um sjónarhorn þess höfundar á land sitt og þjóð að manneskjan hefur ekki annað en horft á landið úr fjarlægð undanfarna áratugi.

Þetta snýst, svo það sé nú ítrekað, ekki um að vera „meiri“ eða „minni“ borgari í einhverju landi. Sjálfsagt værum við nú samt flest sammála um að það væri verið að sleppa veigamikilli staðreynd þegar viðkomandi væri kynntur til sögunnar sem „sams konar“ Íslendingur og þeir sem búið hafa á skerinu vindbarða mestalla sína tíð og upplifað sjálfir örlagaríka atburðina á eigin skinni.

Alaa al-Aswany er ekki alveg sama marki brenndur, hann býr vissulega og starfar í Egyptalandi en bjó þó í Bandaríkjunum í tæp tuttugu ár. Það má vel vera að einhverjum þyki ósanngjarnt að draga fram þá staðreynd þegar að maður fjallar um skáldverk höfundarins og þá egypsku rödd sem þau eiga að bera með sér. Hann á það þó sameiginlegt með Hosseini og Adiga að bækur hans líta út fyrir að vera markaðssettar sem raddir úr óræðum heimum handan hins alltumlykjandi Vesturs, án þess að þær séu það endilega.

Blærinn á þessum sögum er nefnilega allur fremur vestrænn, fyrir utan það að allar eiga þær það sameiginlegt að hafa fremur léttvægt bókmenntalegt gildi, vera hálfgerður skyndibiti. Kosturinn við þær er helst sá að veita að minnsta kosti meiri innsýn í líf og aðstæður fólks innan þeirra stóra sögusviðs (Egyptaland, Afganistan og Indland) heldur en gengur og gerist í tuttugu sekúndna fréttaklippum frá þessum stöðum, sem einna helst birtast okkur þegar eitthvað voðalegt gerist þar.

Sú bók sem hér er til umfjöllunar, Chicago eftir fyrrnefndan al-Aswany, þurfti að þola allan þennan langa formála en þrátt fyrir að bókin sé fyrst núna nefnd til sögunnar þá má heita að allt sem þegar hefur verið sagt eigi við um hana líka.

Að vísu er sögusvið Chicago einmitt samnefnd stórborg í Bandaríkjunum en þar lærði og starfaði al-Aswany. Bókin er mósaík-mynd frásagna af ýmiss konar Egyptum og fólki þeim tengdum sem lifa og hrærast á stúdentagörðum og göngum háskólans þar í borg, einkum stúdentum sem komist hafa svo langt að fá styrk til að mega leggja stund á framhaldsnám við skólann. Tilvera þeirra og landvistarleyfi eru auðvitað skilyrt námsárangri þeirra, svo og ýmsum óbeinum þrýstingi útsendara hinna ólýðræðislegu egypsku stjórnvalda á staðnum.

al-Aswany tekst á nokkuð sannfærandi hátt að lýsa þeirri innri baráttu sem á sér stað meðal þessara Egypta sem reyna að gera það upp við sjálfa sig hversu mikið þeim eigi að leyfast að tileinka sér af siðum og háttum gistilandsins. Stundum hreinlega hversu langt þeir eigi að ganga í því að gerast Bandaríkjamenn og gleyma upprunanum.

Fleiri slík dæmi mætti nefna og þau gera þessa bók ágæta fyrir markhóp bókarinnar, fólk sem vill nota skáldskap til að velta fyrir sér ákveðnum álitaefnum alþjóðlegrar umræðu. Það er gott og gilt út af fyrir sig og þar með skiptir minna máli þó að bókmenntalegt gildi Chicago sé ekki sérlega mikið. Allt er þetta nefnilega fremur sápuóperukennt og ristir ekki sérlega djúpt, það er svona Hollívúdd-slykja á þessu.

Birtist fyrst á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, skáldskapur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s