Atómstöðin eftir Halldór Laxness

Það hefur verið lenska að tala niður Atómstöð Halldórs Laxness og sú bók er ansi oft tilnefnd þegar fólk er beðið um að nefna flopp á hans höfundarferli.

Ég las Atómstöðina einhvern tíma frekar seint í Laxness-maraþoninu mínu sem ég tók sirka 18-19 ára þegar ég olnbogaði mig í gegnum alla burðarstólpana í hans höfundarverki. Man ekki nákvæmlega hvað mér fannst þá en mig minnir að mér hafi ekki þótt hún eiga neitt í bestu verkin.

Ég er svo sem enn á sama máli nú eftir að hafa hlustað á höfundinn lesa Atómstöðina í útgáfu sem RÚV var svo vænt að leggja út á podcastið sitt, hlustendum sínum til ánægju og yndisauka (vona að það liggi þar enn svo fólk geti hlustað).

Atómstöðin er nefnilega sannarlega ekkert á við bestu verk HKLs. Persónurnar eru engan veginn jafn flóknar og vel samansettar og flottustu karakterarnir úr hans bestu verkum sem iðulega hafa þann góða eiginleika vel smíðaðra sögupersóna að maður finnur til með þeim og skynjar í þeim fleiri víddir en bara tvær. Hafa til að bera þann breiskleika og óútreiknanleika sem manneskjur af holdi of blóði einkennast líka af.

Í Atómstöðinni er þetta allt einhvern veginn grynnra og mér liggur við að segja steríótýpískara. Við erum með kjörkuðu sveitastúlkuna að norðan, spilltu og óhamingju sömu ríku börnin og fjarrænu og köldu móður heimilisins og svo erum við með góðlegu lydduna Búa Árland sem hvíslar það að hverjum og einum sem sá vill heyra í það og það skiptið. Þeir sem helst dýpka persónuflóruna er allt slektið heima hjá organistanum.

Svo virðist vera farið að örla á forpokun hjá Laxness í þessari bók þegar að hann dregur upp lýsingu af ungdómnum í höfuðborginni og þá er sjónarhorn hinnar 21 árs norðandömu ekki alltaf nógu sannfærandi, hinn lífsreyndi höfundur missir sig stundum í að ljá henni aðeins of mikinn þroska og lífsreynslu.

Þrátt fyrir þessar takmarkanir er Atómstöðin fínt skáldverk og myndi örugglega skora hærra í íslenskri bókmenntasögu ef höfundurinn væri einhver annar en Halldór Laxness og viðmiðunin væri önnur en Heimsljós, Sjálfstætt fólk og slík burðarvirki 20. aldar bókmennta á Íslandi. Það er margt mjög gott í þessari bók og í henni birtist auðvitað ákveðinn aldarspegill, ekki bara í sögusviðinu heldur líka í pólitísku sannfæringunni sem dreif höfundinn af stað í skrifin.

Það er nefnilega alltaf auðvelt að vera vitur nokkrum áratugum eftir á og hlæja að hysteríunni í Halldóri yfir öllu þessu með að selja landið og svíkja. En þeir ættu að hlæja meira, þeir Íslendingar sem í nútímanum hafa á undanförnum misserum gengisfellt gífuryrði eins og ,,landráð“ og ,,föðurlandssvik“ af mismikilvægu tilefni og margspáð endanlegri glötun lands og þjóðar.

Það felst viss sanngirni í því að reyna að setja sig inn í það að hugarró og yfirvegun er kannski ekki sérlega auðveld í hugmyndahemi fólks sem nýbúið er að upplifa eina heimsstyrjöld og átta sig á þeim hryllingi að ný tegund vopns, atómbomban, geti þurrkað út allt líf á svipstundu, fyrir utan að hin tvö nýju stórveldi heimsins virtust ekki beinlínis vera uppteknust af því að sleppa friðardúfum inn á áhrifasvæði hvert annars.

Maður þarf þess vegna ekki að lýsa því yfir að Halldór Laxness hafi reynst spámannlega vaxinn þegar hann sá fyrir sér endanlega sölu lands síns, þó maður lýsi yfir miklum skilningi á því að varnarsamningurinn milli Íslands og Bandaríkjanna og inngangan í NATÓ hafi vægast sagt komið miklu róti á huga flestra Íslendinga þessa tíma. Og þetta skrifar harður fylgjandi veru Íslands í NATÓ og svokallaðrar ,,vestrænnar varnarsamvinnu“.

Og auðvitað tæpir hér Laxness líka, eins og alltaf, bæði á eilíflegum mannlegum gæðum og hálfvitaskap. Eða kannast kannski fleiri en ég við hlutafélagið Snorra-Eddu sem aldrei hafði upp á neitt að bjóða nema pening á pappír en gerði samt örfáa forríka, alla vega á blaði? Reyndar má um Laxness segja að hann á margar frábærar mannlýsingar af íslenskum hálfvitum í hópi siðlausra og prinsipplausra framapotara, tegund fólks sem alltaf hefur gengið illa að uppræta á Íslandi sökum þess hve margir eru til í að vökva mold þeirra. Pétur þríhross kannski bestur.

Atómstöðin er því bara alveg ágæt eftir allt saman. Hún bara lendir alltaf í svo ofsalega grimmum samanburði.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, skáldskapur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s