LIberty eftir Jakob Ejersbo

Það gerist ekkert allt of oft að á vegi manns verði svo góður litteratúr að maður hafi helst áhyggjur af því að maður noti of sterk lýsingarorð til að túlka hrifningu sína.

En það verður þá bara að hafa það. Liberty eftir Jakob Ejersbo, síðasti hluti Afríkuþríleiks hans svokallaðs, kórónar stórkostlegt bókmenntaafrek. Þetta eru bókmenntir í algjörum heimsklassa og gera það sem bara bækur í efsta topklassa geta gert: opna fyrir manni heilan heim sem manni var áður huldur og bæta mann og þroska (eða það finnst manni, alla vega).

Þríleikur Ejersbos er, enn sem komið er, bara til á dönsku en ég yrði ekki undrandi á því að sjá þessar bækur breiðast út um allan heim og verða það sem þær eru raunar nú þegar: sannkallaðar heimsbókmenntir og instant klassík.

Liberty er um það bil 700 blaðsíðna lokaþáttur 1300 síðna þríleiks sem hverfist einkum um afkvæmi starfsmanna vestrænna þróunarsamvinnustofnana í Tansaníu á níunda áratug síðustu aldar. Mestmegnis sjáum við af dönskum og sænskum fjölskyldum við þessar aðstæður en fyrsta bókin fókuserar reyndar aðallega á enska unglingsstúlku og miðbókin inniheldur frásagnir af rótlausum afkvæmum héðan og þaðan sem miserftitt eiga með að finna sjálf sig í Tansaníu og á öðrum slóðum sem örlögin þeyta þeim á.

Í Liberty eru sögumennirnir tveir, annars vegar hinn danski Christian sem kemur ásamt foreldrum sínum til Tansaníu á frumunglingsárum sínum og bögglast með það næstu árin hvað sé ,,heima“ fyrir hann. Hinn sögumaðurinn er tansaníski unglingurinn Marcus sem starfar inni á heimili sænskrar fjölskyldu á staðnum og er, þrátt fyrir ungan aldur, nánast eini fasti punkturinn í lífi tveggja barna hinna mjög svo dysfúnksjónal hjóna heimilisins.

Við fylgjum þeim báðum frá unglingsárum og til fyrstu fullorðinsáranna og hvernig vonir þeirrar molna smám saman niður í lífsins ólgusjó. Marcus dreymir stöðugt um að staða hans geti að einhverju leyti leitt til hins stóra gegnumbrots; tækifæris til að komast til Evrópu. Stöðug svik verða hins vegar til þess að sá draumur frestast alltaf aðeins lengur.

Áföll í fjölskyldu Christians verða til þess að fjölskylda hans leysist upp í frumeindir og rótleysi hans er algjört. Hann reynir að festa rætur í Tansaníu en umhverfið ætlast til annars af honum og hann er sendur til Danmerkur til náms. Lýsingin á því þegar hann kemur aftur til Evrópu eftir nokkurra ára dvöl í Afríku er mögnuð, sérstaklega sena í Hollandi þar sem Christian lýsir umhverfinu sem vísindaskáldsögu, allt sé svo hreint og strokið, meira að segja grasið á flötunum fyrir utan hótelið sem hann gistir á er eins og gólfteppi.

Hann passar ekki lengur inn í Danmörku, stingur af þaðan og gerir aðra tilraun til að koma sér fyrir í Tansaníu og starta ferli sem plötusnúður á diskótekum borgarinnar sem hann heldur til í. Það reynist allt annað en auðvelt.

Liberty tekst á snilldarlegan hátt að gefa lesandanum innsýn í gríðarlega mikinn epískan sagnaheim. Lesandinn áttar sig á valdasamhenginu milli Evrópubúanna sem alltaf hafa hreðjatökin og geta alltaf stungið af ef þeir nenna þessu ekki lengur og svo svörtu Afríkubúanna sem reyna af miskunnarleysi að feta sig upp hinn samfélagslega stiga, helst alla leið til hins vestræna heims. Ég hef alltaf látið hugtakið ,,þróunarsamvinna“ fara í taugarnar á mér og geri það enn meira eftir lestur Liberty. ,,Samvinna“ byggist nefnilega á aðilum með álíka mikið valdahlutfall. Í þróunarsamvinnu ráða Vesturlönd og hinir verða að standa og sitja eins og þeir vilja sem veifa peningapungnum. Segjum það bara alveg eins og það er, slík samskipti eiga ekkert skylt við samvinnu og eru bara nefnd því nafni til að allt dótaríið hljómi meira pólitíkallí korrekt.

Í Liberty sjáum við hvernig hið nýja umhverfi beitir hvíta fólkinu í valdagráðug skrímsli sem verða háð því að lifa við aðstæður þar sem þau geta lifað eins og greifar og greifynjur og komið fram við innfædda eins og þræla. Þess vegna eiga þau erfitt með að snúa aftur til Evrópu til óbreytts millistéttarlífs en aftur á móti er tilveran í Afríku þeim alltaf jafn framandi, þau lifa sínu aðskilda lífi frá hinum 99,9 prósentunum á sínum vökvuðu flötum, með sinn innflutta mat og í sínum lokuðu golfklúbbum.

Og þeir Evrópubúar sem koma, blautir á bak við eyrun, og vilja bjarga heiminum verða aðhlátursefni hinna, bæði hvítra og svartra. Og þeir sem reyna að líta á hina innfæddu sem jafnréttháa meðbræður sína og systur og sjálfa sig sem hluta af þeirra samfélagi, þeir daga uppi í því að skilgreina heiminn ólíkt öllum öðrum og mæta því litlu annað en tortryggni og skilningsleysi og daga að lokum uppi með nálgun sína. Þetta er að mörgu leyti staða Christians í bókinni

Maður veit auðvitað ekkert hversu ,,sönn“ myndin er sem Ejersbo gefur af Afríku. En hún virkar ansi sannfærandi, sérstaklega með það í huga að Ejersbo bjó sjálfur sem unglingur á svipuðum slóðum og í sömuheimi bókarinnar. Maður finnur fyrir hitanum og rykinu, lyktinni. Manni finnst maður upplifa daglegt líf í Afríku, ekki svart-hvítt eins og í stuttum fréttainnslögum, heldur út frá öllum sjónarhornum. Oft er því haldið fram að maður kynnist slíku í ýmsum heimsfrægum bókum síðustu ára (Flugdrekahlauparinn, bækur hins egypska Al-Aswanys og fleiri) en munurinn á Afríkuþríleik Ejersbos og þessum innan svigans er að allt hitt er afar billegur litteratúr sem er seldur út á sögusviðið og lítið annað og gefur manni því lítið.

Afríkuþríleikurinn er hins vegar stórkostlegt bókmenntaafrek – epísk snilld, ekkert minna.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, skáldskapur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s