,,Hlustaðu á þína innri rödd“ eftir Kristínu Jónsdóttur

Allir kannast við það að hafa einhvern tíma gefið maka sínum gjöf sem þá langar helst sjálfa í (og sjá fram á að geta nýtt sér).

Það er hins vegar kannski óalgengara að karlar gefi konum sínum í þessum tilgangi bók um sögu Kvennalistans. En það gerði ég hérna um árið. Ber reyndar að taka fram að þiggjandinn var mjög ánægður og las bókina upp til agna.

En bók Kristínar Jónsdóttur, ,,Hlustaðu á þína innri rödd“, hefur samt beðið mín fjögur ár upp í bókahillu þar til um daginn að ég greip í hana og las. 

Kristín fer í þessu riti skilmerkilega yfir mótun og upphafsár Kvennaframboðs í Reykjavík og Kvennalista. Sú saga er mestmegnis rakin til 1987 en í lokin fylgir eftirmáli þar sem skautað er yfir það sem síðan gerðist og allt þangað til að Kvennalistinn rann inn í Samfylkinguna rétt fyrir síðustu aldamót.

Það er athyglisvert að lesa bók Kristínar og bæði rifja upp fyrir manni það sem maður þekkti að einhverju leyti og eins opinbera það fyrir manni sem maður vissi ekki. Ég hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir því að Kvennaframboðið í Reykjavík (og annars staðar) hefði í raun verið aðskilin eining frá Kvennalistanum í upphafi (síðar meir sameinuðust þessi öfl reyndar og kannski lá það líka alltaf í loftinu).

Einnig er athyglisvert að sjá hversu mikið áherslurnar í femínisma hafa breyst á þeim árum sem liðin eru og endurspeglast á nokkurn hátt í þeim hugmyndafræðilegu átökum sem fara að ágerast eftir því sem líður á starfstíma Kvennalistans. Raunar hefði verið athyglisvert að fá að heyra meira um það því að í raun er það fyrst í eftirmála sem Kristín fer að gera almennilega grein fyrir þeim ólíku útgáfum femínisma sem þarna tókust á. Mæðrahyggjan og ákveðin eðlishyggja víkur smám saman fyrir hugmyndum um mótunarhyggju og póstmódernískum femínisma.

Þetta leiðir mann að þeirri rökréttu niðurstöðu að Kvennalistinn bar að sjálfsögðu svipmót síns tíma og verður því aldrei aftur endurtekinn í sömu mynd. Það sér maður glöggt á hliðstæðu dæmi frá Svíþjóð þar sem Feministiskt Initiativ (FI), mjög athyglisverður og aðdáunarverður feminískur flokkur Gudrunar Schyman, starfar eftir allt öðrum formerkjum og hugmyndum en Kvennalistinn forðum. FI hefur frá upphafi í raun komið inn í póstmódernísku umræðuna þar sem ungu konurnar undir lok Kvennalistans voru komnar þar sem inn í gender-umræðuna blandast umræðan um kynferði, kynhneigð, fjölskylduform og fleira sem gjörsamlega brýtur upp smáborgaralegar hugmyndir okkar flestra um heterósexúal-tilveru kjarnafjölskyldunnar sem hornstein samfélagsins.

Kvennalistinn var nauðsynlegur á sínum tíma og feminískar áherslur eru það að sjálfsögðu enn og kannski þarf einhvern tíma aftur að stofna stjórnmálaflokk eða kraftmikið afl sem getur fært kynjavíddina á fullu krafti inn í meginstraum umræðunnar. Alla vega sýnir yfirferð bókarinnar það að það var enn fornöld í jafnréttismálum í upphafi níunda áratugarins þegar konurnar tóku málin í sínar hendur og buðu fram. En þá – eins og nú – var samt fólk sem hélt fram að þetta væri óþarf, jafnrétti kynjanna væri löngu komið á. Það var bull þá og það er bull nú.

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s