Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Norðdahl

Íslendingar státa sig af ýmsu sem mismikil innistæða er fyrir. Við erum, að eigin sögn, svo frjó og skapandi, opin fyrir nýjustu straumum utan úr heimi og umburðarlynd og ofurnútímaleg á allan hátt.

Nánari skoðun leiðir ekki endilega til staðfestingar á svona mýtum enda eru þær flestar fljótuppfundnar og heimatilbúnar og yfirleitt án nokkurs samanburðar við jafnvel nálægustu lönd.

Við erum svo sem alveg ágæt og örugglega um margt hvorki verri né betri en fólk annarra þjóða. Þó er margt við íslenskt samfélag sem gerir þessa mynd af okkur, sem sjálfskipaðir heimsmeistarar í list og frjórri hugsun, ekki sérlega sannfærandi.

Staðreyndin er nefnilega sú að íslenska fámennið og landfræðilega einangrunin leiðir ósjaldan til allt að því kæfandi fábreytni og einsleitni. Þetta birtist t.d. í því að varla er hægt að tala um að fjölmenning eða jaðarmenning sé til á Íslandi. Smáborgarahátturinn veldur því að mikill meirihluti Íslendinga botnar enn ekkert í jaðarmenningarfyrirbærum sem milljónasamfélög sunnar á hnettinum hafa þekkt í áratugi.

 

Nýlegt dæmi er hústökumenning sem þangað til nýlega einskorðaðist í Reykjavík mestmegnis við útigangsfólk í leit að skjóli fyrir slyddu og slabbi – og er þar af leiðandi ekki menning, heldur viðbragð við neyð. Síðustu misseri hefur þetta fyrirbæri hins vegar holdgerst í litlum hópi fólks sem beinlínis kynnir þetta til sögunnar sem annað hvort lífsstíl eða pólitískan gjörning, líkt og tíðkast hefur í Evrópu og víðar um áratugaskeið. Þar hefur debattinn verið í gangi allan tímann.

Íslensk yfirvöld eða fjölmiðlar virðast hins vegar lítið þekkja til blæbrigða þess hvort að draugfullur róni leggst út í horn í yfirgefnu hreysi eða að allsgáður hópur fólks taki hús yfir í menningarlegum eða pólitískum tilgangi. Nýjasta dæmið um slíkt var plebbalegt innslag á vef Vísis þar sem farið var með kaupanda húss á Bræðraborgarstíg um fasteignina til að hneykslast á og hrista hausinn yfir subbuskapnum í hústökufólkinu sem hreiðrar hafði um sig í tómri eign sem þegar hafði drabbast niður um nokkurt skeið. Greinilega átti að skella allri skuld á þetta subbulega fólk sem gat gerst sekt um aðra eins ósvinnu og að nota autt og ónotað rými og skreyta það þannig að það átti ekki séns á að komast í dauðhreinsaða stílíseringuna í Húsi og híbýlum eða Innliti/útliti.

Enginn spurði hvort að við fyrri eiganda væri kannski frekar að sakast – að kaupa húsnæði sem hann ætlar ekki að halda við. Ekki var heldur í innslaginu talað um smekkleysið sem felst í því að byggja og byggja og byggja án þess að fyrir liggi hver eigi að nota og ekki heldur siðleysið sem felst í því að kaupa húsnæði til að láta það drabbast niður til að geta síðan rifið og braskað og byggt nýtt og stærra og groddalegra.

 

Þessi togstreita á milli smáborgaraháttar og stórkapítals annars vegar og svo hinna sem vilja storka kerfinu, með réttum eða röngum leiðum, birtist líka annars staðar í íslensku samfélagi með álíka litlu umburðarlyndi í garð þeirra sem vega að rótum kerfisins.

Það má til dæmis taka dæmi af umræðunni um höfundarrétt andspænis aðgengi að upplýsingum og list og frjálsri sköpun. Meðan umræðan úti í hinum stóra heimi hefur tekið sveigjur og beygjur, hingað og þangað, þá er hin smáborgaralega einsleitni enn þá ansi hreint ráðandi á Íslandi:

Það á að banna að brjóta á höfundarrétti. Punktur. Svo ræðum við það ekkert meir.

Ofríki eignarréttarins í íslenskum þankagangi er slíkt að önnur rök komast varla að. Það jafnvel þó að í þessu tilviki sé í besta falli hægt að tala um slíka einfalda afgreiðslu um algjört bann sem ,,að stinga hausnum í sandinn“. Í stafrænum heimi eru þetta nefnilega álíka viturleg og dugandi viðbrögð og að opna stofugluggann sinn í stórhríð en halda að það komi enginn snjór inn ef maður bara setur landslög um það að hann megi ekki koma inn.

Að einhverju leyti held ég að það sé kynslóðabundið hversu vel fólk áttar sig á þessu. Þeir sem hingað til hafa alist upp í analóg-heimi, þar sem föst tenging var á milli varnings og þeirrar sköpunar eða hugmyndar sem hann innihélt, eiga erfitt með að venjast því að einhver gerist svo ósvífinn að líta ekki lengur þannig á að kvikmynd og vídeóspóla séu órofa heild, tónlist og geisladiskur, skáldsaga og pappír.

Þeir halda að tíminn standi í stað ef þeir bara afneita þeirri staðreynd að skáldverk, tónlist eða kvikmynd eigi sér tilverurétt utan þessara algengu hylkja sinna. Gleyma því kannski þá í leiðinni að vídeóspólurnar voru líka umdeildar á sínum tíma, áttu líka að kippa stoðunum undan öllum hinum skapandi bransa. Bíóið átti að ganga að leikhúsinu dauðu, sjónvarpið átti að ganga að bíóinu dauðu, vídeóspólur áttu að ganga að sjónvarpinu og bíóinu dauðu og nú á ólöglegt dánlód víst að drepa þetta allt endanlega.

 

Svo eru þeir til sem átta sig á veruleikanum. Sem er þessi:

Netið hefur í dag búið til vettvang þar sem allt er opið öllum – bara að því gefnu að einn einasti maður setji upplýsingar eða skrár inn á síðuna sína. Eftir það er ekkert því tæknilega til fyrirstöðu að öll heimsbyggðin geti sótt upplýsingarnar og skrárnar þangað. Þetta er auðvitað ekkert minna en bylting í heimi þar sem venjulegur maður gat áður í mesta lagi kóperað eitt afrit af orginalnum í einu – og þá yfirleitt með talsvert meiri fyrirhöfn en felst í því nú að styðja lauflétt á einn „download“-reit á tölvuskjánum.

Ekkert minna en bylting og bylting er það sannarlega. Það er ekki ofmælt að segja að þetta hafi gjörbreytt öllum lífsháttum fólks, hlutirnir liggja ekki lengur bara fastbundnir á einhverjum einum ákveðnum stað úti í bæ eða í einni tegund apparats  eða miðils. Í dag gúgglum við, skæpum, sendum viðhengi, tjöttum, dánlódum og strímum. Allt hefur það tekið við af einhverju öðru tímafrekara, óþjálla, dýrara og þröngt miðaðra sem tók upp töluverðan hluta lífs manns svo langt aftur í fortíðinni sem fyrir bara fáeinum árum síðan.

En einhverra hluta vegna virðist þessi bylting ekki vekja neinar sérlega miklar pælingar meðal Íslendinga sem þó eiga að vera á heimsmælikvarða í sköpun og nýjungagirni og framúrskarandi list og menningu.

Kannski það séu reyndar bara þeir háværustu sem tjá sig en einhvern veginn heyrir maður bara það eitt úr því horni að þessi nýi veruleiki allur hafi í för með sér aðför að höfundarrétti og sé því slæmur. Þetta er undarlegt viðhorf af því að það blasir ekki beinlínis við að íslenskir listamenn hafi verið að keyra peningabúntin vegna gróðans af stússi sínu heim í hjólbörum gegnum tíðina. Það er því spurning hvort þeir hafi gert það upp við sig hvort þeir séu í raun að tapa einhverju fjárhagslega. Raunar hafa ýmsar rannsóknir undanfarin ár sýnt hið gagnstæða, listamenn græða meira í dag á tímum dánlóds en áður.

Að einhverju leyti er þetta líka furðu sjálfhverft viðhorf og jafnvel ósamrýmanlegt. Snýst um að hver passi sitt en fái samt sem áður að halda því áfram að nota frá öðrum í sínum verkum enda hlýtur það að vera óhjákvæmilegt hverri sköpun að verða fyrir áhrifum frá öðrum og bræða þau áhrif inn í sín verk. Nema að menn séu enn þá á þessu svona fremur leiðigjarna snillingsdýrkendatímabili sem snýst um að trúa á ofurmenni sem, líkt og guðir, skapa allt úr engu. Flestir þroskast frá svoleiðis vitleysu í síðasta lagi fljótlega upp úr menntaskólatímabilinu.

 

Þetta smáborgaralega viðhorf var samt rofið af alla vega einum íslenskum listamanni um daginn. Og auðvitað var það Eiríkur Örn Norðdahl sem opnaði rauf og hleypti sínu vestfirska roki inn í staðnað loft stássstofunnar.

Ég get ekki sagt að ég hafi alltaf verið jafn ánægður með allt sem ég hef lesið eftir Eirík Örn Norðdahl. Hins vegar getur maður lítið annað getað gert en dáðst að atorkunni í honum gegnum tíðina, hversu duglegur hann er við að storka sjálfum sér og öðrum og hversu sívirkur hann er í því að leita nýrra leiða í listrænni sköpun og hafa jafnvel frumkvæði að því að kynna hluti fyrir íslenskum listunnendum.

Debatrit hans Ást er þjófnaður syndir gegn straumnum í íslensku listalífi á svo margan hátt. Ekki bara sendir Eiríkur Örn frá sér hraðsoðið debatrit um málefni líðandi stundar, eins og algengt er erlendis, heldur fer hann líka nútímalegar leiðir í útgáfunni og nýtir sér á allan hátt hinn alltumlykjandi stafræna veruleika.

Hann byrjaði á því að blogga bókina, breytti henni svo í bók, póstaði reglulega úr henni á Facebook á meðan ritun stóð og svo þegar allt var klárt þá setti hann allt á vefinn sinn og sagði: vessgú, hirðið – en borgið ef þið tímið. Svo setti hann ritið líka upp sem bók og bauð upp á að panta á vefnum Lulu þar sem konseptið er að maður pantar bók og hún er þá sérstaklega búin til fyrir mann: prentað eftir pöntun (print-on-demand).

Ég frétti af bókinni eftir þessum leiðum Eiríks á framleiðslustiginu og pantaði mér bókina á Lulu – í fyrsta skipti sem ég prófa það.

Innihaldið er þó það sem er allra mest spennandi við bók Eiríks Arnar. Hann tekst á við umræðu um höfundarréttinn í stafrænum veruleika. Og þekki maður Eirík rétt þá veit maður að hann verður seint sakaður um smáborgalegan þankagang.

Ég var svolítið banginn þegar ég hóf lesturinn því að ég hef, eins og sagt var í upphafi, verið mishrifinn af þeim verkum sem ég hef hingað til lesið eftir Eirík.

Óttinn í upphafi lestrar hvarf strax. Eiríkur hremmir lesandann frá byrjun, mig alla vega, og allar þær 155 blaðsíður sem kverið er rígheldur hann manni við efnið, vekur upp hjá manni þanka, bryddar upp á því sem maður hafði ekki áttað sig á og skerpir á hugsun manns og skoðunum á þessu álitamáli sem samband höfundarréttar og sköpunar er. Svona vel hefur enginn íslenskur höfundur gert í debatriti, ekki svo ég hafi lesið alla vega, síðan að Andri Snær kom fram með Draumalandið (ekki það reyndar að debatrit eftir íslenska rithöfunda komi út í tugatali ár hvert).

Eiginlega langar mann í svona umfjöllun að endursegja bara alla bókina, öll dæmin sem Eiríkur tínir til, hér verður látið duga að nefna nokkur og velta vöngum í kringum þau.

 

Eiríkur ræðir það í upphafi ritsins hversu kjánalegt það er að leggja að jöfnu stuld á hylki listaverks og listaverkinu sjálfu. Hann nefnir dæmi úr eigin lífi, þegar hann stal bókum af Héraðsbókasafni Vestfjarða sem unglingur. Hann segist sjá eftir því í dag og skammast sín niður í tær. Hins vegar, segir hann, að ef hann hefði getað klónað eintökin og tekið síðan klónaða eintakið með sér heim og skilið originalinn eftir óhreyfðan uppi í hillu, þá hefði hann ekki hikað.

Flestir sjá enda muninn. Og það er einmitt þarna sem hundurinn liggur grafinn. Sjálfur keypti ég mér, eins og fyrr sagði, bókina hans Eiríks á Lulu. Mest megnis af því að mig langaði í gripinn, af því að mér finnst óþægilegt að lesa bækur af venjulegum tölvuskjá og svo hafði ég ekkert á móti því að styrkja fátækt skáld í Norður-Finnlandi um nokkrar krónur svo hann geti safnað sér fyrir loðhúfu eða vettlingum í kuldaköstunum þar um slóðir.

En svo gerðist það líka að ég var að skrifa part af þessari langloku minni en skildi bókina eftir á öðrum stað. Þurfti samt að fletta upp í henni. Fór þá á síðuna hans Eiríks og dánlódaði pdf-eintaki af henni þar. (Og til að bíta höfuðið af skömminni kóperaði ég kápumyndina af bókinni hans af vefnum hans, án leyfis, og setti inn í þessa bloggfærslu, með tilheyrandi tekjumissi fyrir kápuhönnuð og fjölskyldu hans.)

Eiríkur gaf reyndar öllum leyfi til að dánlóda bókinni en spurði samt hvort fólk væri ekki til í að borga. Átti ég þá að gera það aftur, hafandi þegar keypt mér prentað eintak? Harðir fylgjendur höfundarréttarins myndu segja: já, nó metter vott!

Við Eiríkur myndum hins vegar sjálfsagt báðir segja: nei. Ég tók nefnilega ekkert frá Eiríki, það skrapp ekkert saman hans megin í tölvunni þegar ég dánlódaði mínu pdf-eintaki. Ég náði mér bara í afrit. Hins vegar myndi ég verða fúll ef einhver tæki prentgripinn sem ég pantaði mér á Lulu með sama texta eftir Eirík, því þá væri ég búinn að glata efniskennda gripnum sem mig langaði svo í – jafnvel þó að ég hefði áfram aðgang að textanum annars staðar.

 

Eiríkur fer í mörgum dæmum yfir það hversu dæmalaust við, aumur pöpullinn, höfum látið ginnast af emósjonal blakkmeili peningaaflanna sem hafa náð að planta inn hjá okkur samviskubiti yfir því að við séum alltaf og ávallt að brjóta höfundarrétt við einföldustu og ólíklegustu athafnir og það sé jafnljótt og að stela úti í búð.

Og líka hvernig peningaöflunum hefur tekist að fá listamennina með sér í lið, þrátt fyrir að fátt bendi til þess (eins og Eiríkur rekur) að það sé listamönnum á nokkurn hátt í hag að standa með eignaréttinum í baráttu við frelsi til sköpunar og þess að njóta sköpunar. Þeir ættu svo klárlega að vera í hinu liðinu! Þó ekki væri nema af þeirri einföldu ástæðu að það er fremur ólíklegt að þorri allra listamann tapi nokkru í peningum á þeim nútímaaðferðum við að nálgast list sem peningaöflin hafa dæmt ólögleg.

Hann fer yfir mörg absúrd dæmi höfundarréttarins og hversu heft við værum ef við gaumgæfðum ávallt hvort við værum að brjóta slíkan rétt og létum það svo stoppa okkur þegar við kæmumst að því að svo væri.

Hann nefnir eitt absúrd dæmi. Hann vantaði einn daginn nauðsynlega graflaxsósu. Mátti hann þá fara á netið og nýta sér uppskrift að graflaxsósu þaðan sem hugsanlega hefur verið sett ólöglega inn á netið? Má hann, þegar hann kemst að því að hann vantar dijon-sinnep í uppskriftina, búa til sitt eigið dijon-sinnep? Er hann þá að ganga á lögbundinn eignarrétt einhverrar auðugrar sinnepsfjölskyldu í Frakklandi, svipta hana prósentu sem hún á skilið af sölugróðanum vegna sinnepssköpunar sinnar? Má hann, þegar hann kemst að því að hann vantar Tabasco í dijon-sinnepið sitt, brugga sína eigin sjóræningjaútgáfu af Tabascoi? Er það eins og að stela úti í búð?

Absúrd dæmi, segir einhver, en skiptum dijon-sinnepinu og öllu hinu út fyrir það að spila lag með Lady Gaga í partíi af Youtube, spila Bítlalag fyrir pabba sinn á gítar í stórafmæli og deila mynd af Andrési önd á veggnum sínum á Facebook. Allt kolólögleg notkun á höfundarréttarvörðu efni og alveg eins og að stela úti í búð – segja peningaöflin.

 

 

Ekki einfaldast málið þegar að peningaöflin eru búin að koma því inn í hausinn á manni að það eitt hvort samþykki um birtingu og dánlód liggi fyrir eigi að skera úr um hvort það sé eins og að stela úti í búð þegar maður strímar, dánlódar eða gerir eitthvað annað álíka hræðilegt.

Það er til dæmis hægt að stríma tónlist löglega á vef eins og Spotify. Svo er hægt að gera það ólöglega á vef eins og Grooveshark. Munurinn á Spotify og Grooveshark er hins vegar nánast enginn, þannig séð. Maður flettir upp lögum og spilar þau svo. Og til að gera þetta nú enn flóknara er fullt af dóti sett út á Youtube með fullu samþykki þeirra sem eiga höfundarréttinn en svo er fullt af dóti þar án sama samþykkis. Á maður þá í hvert skipti sem maður þorir að spila lag á Youtube að gaumgæfa að það sé örugglega lögvarinn fulltrúi þess aðila sem á höfundarréttinn að tilteknu listaverki sem setti dótið inn áður en maður þorir að spila það – svo maður forðist nú að drýgja sama glæp og það er að stela úti í búð? Fá svo samviskubit eftir á og þjófkenna sjálfan sig, jafnvel gefa sig fram sjálfviljugur við lögregluna í sínu umdæmi, ef maður hefur gerst sekur um að horfa á eitthvað á Youtube sem einhver annar en þinglýstur og lögvarinn fulltrúi hefur sett þangað inn?

 

Aðferðir peningaaflanna eru yfirleitt að reikna slíka ,,ólöglega notkun“ sem beint tap. Þegar þú hlustar á ólöglegt öpplód á lagi með Lady Gaga á Youtube, reikna peningaöflin það út hversu mikið þau töpuðu á því að þú skyldir ekki hafa keypt lagið í staðinn á iTunes eða geisladiskinn í Skífunni. Sirka sama upphæð sjálfsagt og sinnepsfjölskyldan franska tapaði á því að Eiríkur ákvað að blanda sér eigin versjón af dijon-sinnepi í stað þess að kaupa krukku úti í búð. Eins og að stela dijon-sinnepskrukku úti í búð að búa sér til sitt eigið dijon-sinnep.

Flestir sjá að svona reikningsdæmi gengur engan veginn upp. Eiríkur nefnir sjálfur hversu mikil gígabæt af tónlist hann hefur inni á tölvunni sinni sem hann dánlódað, tékkað á einu sinni eða jafnvel aldrei hlustað á og hent síðan út af því að harði diskurinn er að fyllast. Tónlist sem hann hefði samt aldrei keypti í formi geisladisks úti í búð.

Í raun svipað ferli og að blaða í bók úti í bókabúð sem maður er forvitinn um (gott ef Eiríkur nefnir þetta dæmi ekki líka í bókinni), komast svo að því að mann langar ekki að lesa meira í bókinni og setja hana svo aftur upp í hillu. Hvað tapaði þá bókabúðin miklum peningum á því og öllum hinum bókunum sem þú blaðaðir í en keyptir ekki?

Samkvæmt sömu röksemdafærslu og peningaöflin að baki höfundarrétta stafrænu listaverkanna gætu bókabúðir þá fengið það út að í raun hefði viðkomandi verið líklegur til að kaupa allar fimmtán bækurnar sem hann blaðaði í í sömu bókabúðarheimsókn án þess að kaupa eina einustu. Samanlagður þjófnaður sé því tæpur 50 þúsund kall (hafi hver bók kostað rúman 3000 kall) og þar með hafi þjófurinn á sinni samvisku að hafa gert alla þá sem fá prósentur af sölu bókarinnar fátækari og aumingja fjölskyldur þeirra líka.

Ímyndaða tapið er nefnilega það sama. Eini munurinn er einfaldlega sá að enn sem komið er hafa bækur ,,sloppið tiltölulega vel“ frá stafrænu menningunni en það er óðum að breytast með aukinni rafbókavæðingu og betri tækjum til að lesa rafbækur. En það mun breytast og þá verður absúrd-dæmið hér að ofan raunverulegt og við förum að heyra alla prósentuhafa bókanna barma sér yfir því hversu dánlódaða ljóðabókin hans Eiríks Arnar Norðdahls hefði líklega slegið Íslandsmet í sölu þar sem einhver hefði komist að því að henni hefði verið lekið ólöglega á netið og þaðan dánlódað fimmtánþúsund sinnum.

Eiríkur Örn gæti svo skammast yfir því hversu mikið hann hefði tapað og neitað að horfast í augu við það að þó að Eiríkur sé glúrinn höfundur þá er afar ólíklegt að meira en fimm eða tíu prósent þeirra sem af forvitni tóku bókina hans inn í tölvuna sína hafi svo mikið sem kíkt á skjalið sem innihélt textann, hvað það að þau hefðu í raun keypt bókina út í búð, hefði hún staðið þeim til boða. Í þessum útreikningum sínum um tapaðan milljónagróða af ljóðasölu myndi Eiríkur síðan algjörlega neita að horfast í augu við það að í raun voru digital notendur ekki að gera neitt annað en það sem maður gerir úti í bókabúð, taka bókina upp, blaða rétt í henni, leggja hana svo aftur frá sér og gjóa augunum áfram yfir bókaúrvalið og taka upp næstu bók.

 

Þegar í ljós er komið að listamenn tapa lítið á þessu stafræna vafri nútímans með tilheyrandi dánlódi, strími og öðru, þá er komið að niðurstöðunni:

Hverjir græða þá á heftingu tjáningar, sköpunar og þess að nýta sér tjáningu og sköpun annarra? Hverjir aðrir en peningaöflin?

Spyr sá sem ekki veit.

Auðvitað skilur maður að hugverk þurfi að njóta verndar og það góða við pælingar Eiríks er að hann segir það nákvæmlega sama og maður hugsar oft sjálfur: Ég hef ekki lausnina. Ég viðurkenni að þetta er flókið og margrætt og afstætt og það eru til bæði góð með- og mótrök.

En allir þeir sem ekki beinlínis aðhyllast fasisma vilja gjarnan lifa í heimi sem einmitt er flókinn, margræður og afstæður. Þar sem endlösung er ekki til neins staðar, bara deigla og debatt fram og til baka.

Við getum auðvitað farið endalaust áfram í hina áttina – sett löggur á hvert götuhorn til að tryggja að enginn fari yfir á rauðu ljósi af því að við vitum öll að það er bannað að fara yfir á rauðu. Það myndi líkast til tryggja að enginn raskaði almannaró framar með því að fara yfir á rauðu. En viljum við það? Finnst okkur það borga sig?

Regluverðir samfélagsins geta haldið áfram út í það endalausa að setja lög um það að það sé bannað að njóta menningar nema í þeirra apparötum, þeirra lókölum, eftir þeirra reglum. Það virkaði kannski ágætlega í fortíðinni meðan að apparötin og lókölin voru lokuð. Þá var hægt að hafa stjórn á ástandinu. En núna eru lokuðu apparötin og lókölin bara farin, eftir stendur yndislegur óendanlegur víðavangur, uppfullur af löglegri og ólöglegri sköpun. Þeir loka einni ólöglegri búllu og þúsund spretta upp í staðinn. Þetta hefur sína galla en kostirnir eru samt milljón sinnum fleiri.

Og þá er það bara að sjá hvort að forsvarsmenn einarðs höfundarréttar nó-metter-vott ætla áfram að standa hér og þar á þessum óndanlega og galopna víðavangi með hausinn hálfan ofan í sandinum og öskra út í himinblámann, flestum til furðu: ,,Fariði, þetta er einkalóð!“.

Eða hvort þeir hyggjast sætta sig við hinn nýja veruleika, eins og þeir framsýnustu þeirra hafa reyndar þegar gert, mætast einhvers staðar á miðri leið og nýta sér möguleika síbreytilegs og spennandi samtíma og framtíðar sér í hag.

Auglýsingar

2 athugasemdir

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

2 responses to “Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Norðdahl

  1. Bakvísun: Vestfirskt rok inn í stássstofuna | Kurrar í kólibrífugli

  2. Bakvísun: Farið og náið í bókina og lesið hana – hvort sem þið borgið fyrir hana eða ekki | Kurrar í kólibrífugli

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s