Sjálfstæð þjóð eftir Eirík Bergmann Einarsson

Þjóðernisstefna og sjálfsmynd þjóða (ef hún er til) hafa um nokkuð langt skeið verið meðal minna helstu áhugaefna innan félags- og hugvísinda. Ég hef m.a. reynt að komast yfir sem mest sem skrifað hefur verið um þennan málaflokk á Íslandi til að skýra frá íslenskri hlið þessara mála allra og yfirleitt kemst maður að einhverju nýju og áhugaverðu við slíkan lestur.

Á undanförnum árum hefur farið fram heilmikil endurskoðun á fyrri viðhorfum hvað varðar íslenska sögu og sjálfsmynd. Íslenska þjóðríkið eftir Guðmund Hálfdanarson frá 2001 hefur þar ákveðna lykilstöðu en einnig má nefna önnur markverð rit, eins og Understanding Nationalism, doktorsritgerð Birgis Hermannssonar frá 2005 (Birgir mætti endilega fara að gera eitthvað í því að gera þær niðurstöður sínar aðgengilegri almenningi, ritgerðin er enn óútgefin í almennri útgáfu) og svo má nefna safnritin Þjóðerni í þúsund ár? frá 2003 og Uppbrot hugmyndakerfis frá 2008. Fleiri mætti líka týna til af nýlegum dæmum sem koma inn á þessa sömu endurskoðun út frá ýmsum fræðasviðum, s.s. í rannsóknum Jóns Ólafssonar, Ragnheiðar Kristjánsdóttur, Bjarka Valtýssonar, Sigríðar Matthíasdóttur, Vals Ingimundarsonar og Eiríks Bergmanns Einarssonar.

Sá síðastnefndi hefur raunar verið einkar iðinn við að kanna þessi mál öll sömul á undanförnum árum og kynna bæði með fræðistörfum og þátttöku í opinberri umræðu, bæði heima við og erlendis. Segja má að Eiríkur hafi gegnum tíðina nálgast þetta umfjöllunarefni frá nokkrum ólíkum áttum en í þeim hefur alltaf verið undirliggjandi gagnrýnið viðhorf gagnvart þjóðernislegum hugmyndum en jákvæð afstaða gagnvart virkri þátttöku í yfirþjóðlegum samtökum á borð við ESB. Kannski er ekki alltaf jafn óhætt að blanda saman persónulegum skoðunum (líkt og þeim sem Eiríkur kynnir til sögunnar í debatriti sínu Opið land frá 2007) en þó er í raun enn barnalegra að halda að þetta tvennt sé algjörlega aðskilið í sitt hvoru heilahveli eða hjartahólfi fólks.

Eiríkur hefur helgað sig mjög rannsóknum á Evrópusamrunanum en einnig látið nokkuð mikið að sér kveða í umræðunni um innflytjendamál og þar hefur rauði þráðurinn í síauknum mæli beinst að könnun á sjálfsmynd Íslendinga og á allra síðustu árum þeirri sannfæringu hans að áherslan á fullveldið hafi miklu ráðið í afstöðu íslenskra stjórnmálamanna þegar kemur að spurningunni um þátttöku í ýmis konar yfirþjóðlegu samstarfi.

Doktorsritgerð Eiríks um þetta málefni kom út 2009 og segja má að alþýðleg og nokkuð útvíkkuð útgáfa hennar hafi komið út í vor – bókin Sjálfstæð þjóð: Trylltur skríll og landráðalýður.

Ég ætla aðeins að renna yfir mat mitt á þessari bók en get þess að þetta er auðvitað ekki fræðilegur dómur og að lesturinn geldur þess að einhverju leyti að ég las hana í tveimur áhlaupum með nokkuð löngu millibili, fyrst í sumar og svo aftur núna um daginn.

Hér er um fróðlega yfirferð að ræða þar sem athyglisvert er að sjá hvernig orðræðan í stjórnmálunum virðist alltaf leita í svipaðan farveg þjóðernisstefnu og klifana (eða stagls, kannski öllu heldur) á fullveldinu þegar kemur að því að takast á um þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi eða öðrum meiri háttar samskiptum við útlönd, hvort sem um er að ræða vinsamlega alþjóðasamninga eða harðskeyttar alþjóðadeilur. Þessi yfirferð gefur Evrópusinnum t.d. ekki miklar vonir um árangur þegar kemur að því (ef það verður þá ekki stoppað á leiðinni) að Íslendingar greiði atkvæði um það hvort ganga skuli í Evrópusambandið eða ekki. Eiginlega sannfærist maður enn betur eftir lestur þessarar bókar um það að raunar sé sama hvaða himnadýrð mun standa í hinum hugsanlega samningi: Íslendingar muni alltaf segja nei og byggja það á þjóðernisrökum um að samhengi sé á milli vaxtar og velferðar Íslands og sem minnstra afskipta yfirþjóðlegra stofnana. Velferðin og sjálfstæðið séu óaðskiljanlegt tvíeyki.

Alltaf fer þetta í sama farveg: Allt mun farast og vondir útlendingar yfirtaka landið ef við semjum um aðild að NATO, EFTA, EES, ESB o.s.frv. Merkilegt er hvernig í raun mætti segja að sama ræðan sé flutt af andstæðingum þessara aðilda í öll skiptin þar sem ekki þarf annað en að skipta út nöfnum samtakanna sem á að ganga til liðs við á hverjum tíma. Jafnmerkilegt er auðvitað hversu oft Ísland hefur átt að sökkva í sæ og gjöreyðast af vondum erlendum öflum og enn merkilegra hversu illa það hefur gengið eftir. Vitnað er í þingræðu eftir Sighvat Björgvinsson í bókinni þar sem hann hæðist að rökum andstæðinga aðildar að ýmsum alþjóðasamtökum gegnum tíðina og telur það til að líklega sé búið að selja sjálfstæði Íslendinga sjö eða átta sinnum á lýðveldistímanum. Sú ræða var flutt árið 2000 og síðan þá má sjálfsagt telja til allmörg fleiri dramatísk tilvik slíkrar sölu, ekki síst upp á það allra síðasta.

Æsingurinn var sami í Icesave-deilunum en þar hefði Eiríkur að ósekju mátt draga meira inn í umræðuna rannsóknir Guðna Th. Jóhannessonar á umræðuhefðinni í Þorskastríðunum þar sem stuðningsmenn samningaleiðar voru úthrópaðir sem nákvæmlega sömu níðingarnir og landráðamennirnir og þeir sem vildu semja um Icesave. Kaldhæðnislegt er að heyra síðan andstæðinga samninga um Icesave tala um hetjudáðir við útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar en niðurstöður þeirra hetjudáða byggðust yfirleitt að lokum á samningum sem úthrópaðir voru sem svik af þeim sem frekar vildu magna upp ofsa og átök.

Þrátt fyrir að hér sé því um að ræða fræðandi rit, þá sakna ég þess nokkuð að dýpra sé kafað í bókinni og að skýringa sé leitað lengra en í augljósustu heimildir. Þannig má til dæmis spyrja sig að því hvort ekki sé tími til kominn að einhver íslenskur fræðimaður fari raunverulega að skora Guðmund Hálfdanarson á hólm með sjálfstæðri skoðun á því sem leiðir til kenninga hans um íslenskt þjóðerni, þjóðernisstefnu og sjálfsmynd. Sú endurskoðun sem Guðmundur og fleiri áttu þátt í í kringum síðustu aldamót hefur nefnilega staðið tiltölulega óhögguð í u.þ.b. áratug og eftir því sem árin líða er maður farinn að sakna nýrrar endurskoðunar í stað þess að niðurstöður Guðmundar séu alltaf teknar blindandi upp og lagðar til grundvallar, eins og Eiríkur gerir að miklu leyti í þessu riti. Eini fræðilegi dómur sem rit Eiríks hefur fengið, eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing í ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, bendir til þess að þessu fylgi ýmis vandamál en Gunnar Þór setur mörg og stór spurningamerki við þann grunn sem Eiríkur gefur sér og virðist mest megnis byggður á rannsóknum Guðmundar.

Niðurstaða höfundar er einkum byggð á þeim afmörkuðu dæmum sem hann tekur, einkum af umræðum innan þings í deilum um tiltekin aðildarmál að ýmsum alþjóðlegum samtökum. Það hefði stutt niðurstöðurnar ef fanga hefði verið leitað víðar í svipuð átök og umræður. Áður voru nefndar rannsóknir Guðna Th. Jóhannessonar en einnig má nefna rannsóknir á afstöðunni til varnarliðsins og önnur augljós dæmi má nefna, s.s. um alþjóðlegar fjárfestingar í stórvirkjunum á Íslandi, en einnig leita fanga í skyldar rannsóknir, t.d. þær sem íslenskir stjórnmála- og mannfræðingar hafa gert á íslenskri kynþáttahyggju, svo maður nefni nú eitthvað af handahófi. Margt í þeim rannsóknum endurómar nefnilega í umræðunum sem sagt er frá í bók Eiríks, s.s. um einhvers konar hreinleika Íslands og Íslendinga gagnvart umheiminum.

Þá sakna ég þess sama í þessu riti og í fleiri íslenskum rannsóknum, að niðurstöðurnar séu bornar saman við önnur lönd. Okkur Íslendingum hættir stundum til að halda að við séum ein á báti varðandi ákveðin einkenni, þetta og hitt sé „týpískt íslenskt“ sem svo, við nánari athugun, reynist furðulega algengt annars staðar líka. Þarna hefði t.d. verið gagnlegt að prófa þá kenningu hvort að helstu einkennin í umræðunni í þeim málum sem til eru tekin í bókinni séu alltaf svo ólík því sem gengur og gerist erlendis. Og séu þá annað hvort eða ekki alltaf eins „týpískt íslensk“ og þau líta út fyrir í fyrstu.

Þarna má t.d. nefna að rannsóknir á sænskri sjálfsmynd og þjóðareinkennum benda að mörgu leyti til þess að þar sé sjálfstæðis„áráttan“ ekkert síðri, og jafnvel miklu meiri (sjá t.d. Är svensken människa (2006)). Ýmis einstök dæmi úr bókinni mætti líka nefna þessu til stuðnings sem kannski hefðu mátt við nánari greiningu út frá tilfellum annars staðar frá. Þar má t.d. nefna þá fyrirvarastefnu íslenskra stjórnvalda sem Eiríkur talar um í sambandi við EES-samninginn. Hann kennir þá afstöðu við hugmyndina um sérstöðu Íslands og íslensku þjóðarinnar en á svipuðum tíma var „fodnotepolitikken“ eitt af mest áberandi einkennum danskra utanríkisstjórnmála sem einmitt byggðist á svipaðri fyrirvarastefnu. Hún einkenndist þó varla af hugmyndinni um sérstöðu Íslands og íslensku þjóðarinnar.

Á einstaka stað eru líka fljótfærnisleg mistök, eins og þegar Kvennalistinn er sagður fyrst hafa komist inn á þing 1987 (s. 115) en ekki 1983, eins og rétt er.

Þetta er þó um margt mjög fróðlegt rit og höfundi skal að lokum hrósað fyrir það að skrifa ævinlega læsilegan og aðgengilegan texta og í raun ekki síður fyrir það framtak sitt, nú sem áður, að leggja sig eftir því að koma rannsóknum sínum á framfæri meðal lærðra sem leikinna.

Þannig að þrátt fyrir nokkra annmarka þá er þetta gagnlegt rit með heldur sorglegu innihaldi, að mínu mati, sem því miður styrkir mann ekki í trúnni á að málefnaleg umræða sé ein af sterkustu hliðum Íslendinga eða að mikils sé að vænta fyrir þá sem styðja aukna formlega aðild Íslands að alþjóðlegum ríkjabandalögum eða samningaleiðir í deilum við erlend öfl.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s