Ég elska þig stormur eftir Guðjón Friðriksson

Ég byrjaði með hálfum huga að hlusta á ævisögu Hannesar Hafstein sem ég var búinn að vera með inni á gadgetinu mínu í einhver tvö ár án þess að hafa hreyft við því.

Og þetta kom skemmtilega á óvart. Prýðilegasta ævisaga hjá Guðjóni Friðrikssyni en þó var það aðallega viðfangsefnið sem kom skemmtilega á óvart. Hannes þekkti ég svo sem ekkert í þaula en einhvern veginn hefur maður alltaf haft það á tilfinningunni að þetta hafi verið einhver svona uppblásinn karlfauskur af íhaldssortinni. Kannski fordómarnir hafi helgast af því hverjir hafa dáð hann og dýrkað gegnum tíðina sem hafa aðallega verið einhverjir svona útbelgdir karlpungar í Sjálfstæðisflokknum.

Raunar er það meira að segja skrýtið að sjálfstæðismenn skuli halda Hannesi á lofti því að raunin er sú að Hannes er frekar radíkal í skoðunum, teldist líklega sósíallíberalisti í dag og er best að skilgreina út frá þeirri dönsku stjórnmálahefð sem mótaði hann sem klassískan Radikal Venstre-mann. Hann er framfaramaður í flestu, yfirleitt langt á undan sínum samtíma og kynnir ýmislegt fyrir sveitalubbunum á Íslandi sem þeir eru jafnvel ekki móttækilegir fyrir nú öld síðar. Hann ruddi brautina í kvenréttindamálum, realisma í bókmenntum, georgisma, vildi hlutfallskerfi í kosningum (því var að sjálfsögðu hafnað af sveitalubbunum) og stóð fyrir persónufrelsi og mannréttindum í stað þjóðfrelsiskergjunnar sem enn sigrar alltaf alla rökræðu á Íslandi. Þá, eins og nú, þarf lítið til að magna upp í Íslendingum ofsakennda þjóðernisstefnu. Það er ótrúlegt að heyra t.d. af umræðunum um Uppkastið 1908 og heimfæra beint yfir á samtímann, t.d. í Icesave-málinu, um hvernig Íslendingum tekst alltaf að láta útlönd líta út fyrir óvininn og þann sem landráðamann sem fær ekki allt í gegn í samningum við útlönd. Íslendingar náðu þar að fresta fullveldi landsins um tíu ár með sínu dæmigerða innihaldslausa þrasi um ekkert. Þar, eins og nú, með því að hengja sig í eitthvert lagalegt orðalag og leggja það út á sinn eigin veg, langt frá túlkunum annarra, og hanga svo á því út í hið óendanlega, sjálfum sér til mests tjóns og leiðinda.

Hannes var auðvitað hluti af embættismannaklíku og gekk inn í stöður út á ætterni sitt og vensl. Hann naut því nepótismans og tók þátt í honum sjálfum. Og það er frekar dæmigert fyrir stjórnmálamenningu þeirra sem hafa dáð hann síðar meir að það sem helst lifir eftir hann er hvað hann hafi verið glæsilegur í stað þess að minnast brautryðjendastarfs hans í hugmyndafræði og framlags til framfara.

En þetta er afskaplega athyglisverð og skemmtileg ævisaga og mjög góð heimild um hið fremur kaotíska heimastjórnartímabil í íslenskum stjórnmálum og aðdraganda baráttunnar fyrir heimastjórninni.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s