Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

Fyrir ári síðan þá lagðist ég í smá grúsk um flóttamenn og fólk í álíka stöðu á Íslandi í samanburði við „löndin sem við berum okkur helst saman við“. Bráðabirgðaniðurstaða mín var þessi:

Samkvæmt tölum frá Flóttamannastofnun SÞ sem sagðar eru frá því í ársbyrjun 2010 voru flóttamenn á Íslandi 62 og á landinu voru 22 hælisleitendur. Við þetta bætast 133 einstaklingar án ríkisfangs. Hér var því um 217 einstaklinga að ræða í heild.

Talan er allnokkuð hærri hjá frændum okkar Svíum. Þar eru flóttamenn sagðir 81.356 talsins, samkvæmt sömu heimild, hælisleitendur 18.953 og fólk án ríkisfangs 7.758. Alls 108.067.

Hvernig skýrist þessi gríðarlegi munur? Nærtækast er að benda á að Svíþjóð er stórt land og landfræðileg lega þess gerir það að verkum að flóttamenn eiga greiðari leið til landsins. Svo eru Svíar auðvitað um það bil þrjátíu sinnum fjölmennari en Íslendingar og hagkerfi þeirra er eftir því stærra og burðugra.

En skýrir það allt?

Ég leyfði mér að fara í þann leik, sem lengi hefur verið leikinn á Íslandi, þ.e. höfðatöluleikinn. Hvað kom þá út? Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru íbúar Íslands 317.630 1. janúar 2010. Í Svíþjóð sýna sambærilega tölur að þar bjuggu 9.340.682 manns á síðasta degi ársins 2009. Íbúar Svíþjóðar voru því nákvæmlega 29,40743 sinnum fleiri en Íslendingar í ársbyrjun 2010.

Deilum svo þessum 108.067 einstaklingum í Svíþjóð sem eru á skrá Flóttamannastofnunar SÞ í 29,40743. Útkoman er sú að Íslendingar ættu í raun að taka á móti 3675 manns ef þær ætluðu að fylgja í fótspor Svía. Svíar taka sem sagt við tæplega 17 sinnum fleiri flóttamönnum en við Íslendingar – miðað við höfðatölu, vel að merkja!

Hvernig ætli standi á þessum mun?

Erum við svona fátæk og illa stödd en Svíar ekki?

Gáum.

– – –

Margir mælikvarðar eru til sem mæla velsæld þjóða en sá sem er einna almennastur er mæling Þróunarstofnunar SÞ (UNDP) sem á ensku kallast Human Development Index (HDI).  Þar erum við númer 14 af öllum þjóðum heims í nýjustu mælingunni frá því í nóvember 2011. Svíar eru númer tíu.

Danir (þessir sem taka á móti flestum okkar) eru númer sextán. Finnar (þessir með besta skólakerfið) eru númer 22.

Séu grafin upp yfirlit HDI-mælingarinnar annars vegar frá árinu 2007 og hins vegar frá árinu 2008, þá kemur dálítið athyglisvert í ljós. Við erum efst á listanum, heimsmeistarar í velsæld og þróun!

Þá – þegar við stóðum auk þess „framar á flestum sviðum“ ríkjum eins og Svíþjóð – tóku Svíar samt á móti sirka 17 sinnum fleira fólki í nauð en við. Jafnvel þó að Svíar hafi búið við „ofvaxin velferðarkerfi sem framleiða bókstaflega vandamál á ýmsum sviðum“, eins og segir á sama stað. Við hefðum átt að vera í lykilstöðu til að gera 17 sinnum betur en Svíar, framleiðandi ekki vandamál á ýmsum sviðum, eins og Svíar gerðu á þessum árum.

Kannski vantaði pláss, landfræðilegt rými. Það þótti reyndar einum þingmanni fyrir örfáum árum sem fannst nokkur ástæða til að velta vöngum yfir því hvort æskilegt væri að um það bil 400 þúsund manns byggðu Ísland eftir nokkra áratugi, þar af 80 þúsund innflytjendur. Aðrir hafa kannski ekki haft af þessu eins miklar áhyggjur enda sýna tölur að Íslendingar eru langstrjálbýlasta þjóð í Evrópu, hér búa einungis tæpir þrír Íslendingar á hverjum ferkílómetra.

Þá er eiginlega spurning hvað stendur eftir fyrst að hvorki höfðatalan, fátækt né plássleysi getur skýrt sautjánfaldan muninn á fjölda fólks á lista UNHCR á Íslandi annars vegar og í Svíþjóð hins vegar.

Ein góð ástæða er þó eftir. Landfræðileg lega Íslands er óneitanlega stór þáttur í því hvers vegna mun fleiri flóttamenn enda í Svíþjóð en á Íslandi. Það gæti e.t.v. réttlætt tvöfaldan mun, jafnvel fjórfaldan. En réttlætir það sautjánfaldan mun?

– – –

Við getum þá leikið okkur að því að víkka út myndina aftur. Staðreyndin er auðvitað sú að lönd verða fyrir mismiklum þrýstingi flóttamannastraums. Sum Afríkuríki fyllast jafnvel af milljónum flóttamanna frá nærliggjandi ríkjum þar sem óbærilegt ástand ríkir, vegna stríðs, náttúruhamfara eða annars.

Annars staðar er þrýstingurinn minni og kannski má halda því fram að þrýstingurinn sé óvíða minni en ákkúrat á Íslandi, einmitt vegna hinnar landfræðilegu stöðu en einnig þar sem nánast engir flóttamenn eru hér fyrir og ásókn í að hitta fyrir vandafólk sitt á Íslandi því mun minni en víða annars staðar.

En hvernig geta Íslendingar sjálfir haft eitthvað að segja ef við látum svo vera að afstaða þeirra ráði einhverju um það að í Svíþjóð séu sautján sinnum fleiri flóttamenn miðað við höfðatölu? Er þessi sautjánfalda tala Svía bara tilkomin vegna þess að sautján sinnum fleiri sækja það fast að komast í skjól innan sænskra landamæra?

Höfum við Íslendingar sjálfir einhvern tíma sýnt vilja til þess að taka á móti nándar nærri jafnmörgum flóttamönnum og Svíar? Eða höfum við kannski unnið gegn því að hingað komi aðrir en bara örfáir tugir sérstaklega útvalinna af og til?

Hvernig myndum við sjálf vilja að aðrar þjóðir brygðust við ef að t.d. meiriháttar náttúruhamfarir myndu gera lífið á Íslandi óbærilegt, alla vega tímabundið?

Leggur alþjóðasamstarf okkur einhverjar skyldur á hendur? Á það eins við um flóttamannastarf og annað alþjóðastarf? Svari fólk því neitandi þá er út af fyrir sig áhugavert að heyra af hverju það sé, hvort það sé til dæmis af því að betur fari á því að flóttamenn sæki annað en til Íslands. Haldi fólk fram slíkum rökum þá er í sjálfu sér athyglisvert að heyra hvað í þeim felst.

– – –

Finnist fólki hins vegar að við eigum að taka jafnmikinn þátt í því að veita flóttamönnum aðstoð, jafnvel meiri út frá ríkidæmi okkar, þá má spyrja sig af hverju við gerum það ekki? Ef okkur finnst einfaldlega að aðrir en við eigi frekar að veita þurfandi fólki skjól, þá væri athyglisvert að heyra rökin að baki því. Af hverju fer betur á því að fólk setjist að í sænskum borgum og bæjum en íslenskum til að bjarga lífi sínu og barna sinna undan borgarastyrjöldum eða úr jarðskjálftarústum? Er það af því að við höldum að fólk vilji frekar horfa upp á börnin sín deyja en að þurfa að berjast við íslenskan útsynning, beygingu nafnorða og að losa bíl úr skafli og að þess vegna líði því miklu betur í óbærilega ástandinu heima fyrir?

Hvað ætli þeir sárafáu sem hingað hafa komið hafi um það að segja? Allt ætlaði um koll að keyra (alla vega í kollum nokkurs hóps Íslendinga) þegar að íslensk stjórnvöld ákváðu að örfáir tugir palestínskra flóttamanna frá Írak fengju að setjast að á Akranesi árið 2008. Miklar dómsdagsspár voru hafðar uppi, bæði um það að sveitarfélagið myndi illa ráða við hlutina og að fólkinu myndi engan veginn ganga að aðlagast á Íslandi.

Nú rúmum þremur árum síðar hefur ekki enn frést af dómsdegi á Akranesi – ekki nema kannski í fótboltanum þar síðustu árin.

Sjálfsagt eru Magnús Þór Hafsteinsson og aðrir þeir sem urðu sér til skammar í fyrirlitlegum áróðri þeirra gegn komu þessa fólks til Akraness dálítið skúffaðir yfir því að allt hefur þetta gengið svo stóráfallalaust að þeir voru sjálfsagt fleiri en ég sem hálfpartinn höfðu gleymt komu þessa hóps á sínum tíma. Þeir hafa ekki einu sinni skandalíserað nóg til þess að komast í svæsnar fréttir í Skessuhorni, hvað þá meira.

– – –

Það var því ágætis upprifjun að frétta af því á haustdögum að á leiðinni væri heilmikil stúdía Sigríðar Víðis Jónsdóttur blaðakonu á konunum sem mynduðu þennan hóp sem hingað kom og börnum þeirra.

Skemmst er frá því að segja að þetta er gríðarlega metnaðarfullt verk og að að baki því liggur óhemju mikil vinna. Sigríður lætur ekki duga að skrá sögu aðalpersóna sinna, þeirra tveggja flóttakvenna sem eru í brennidepli þessarar bókar. Hún fer líka á staðinn, meðal annars í flóttamannabúðirnar í Írak sem konurnar dvöldu í, til að upplifa hlutina á eigin skinni.

Sigríður færir okkur þannig heiminn heim í stofu. Hún segir okkur sögu kvennanna, rekur raunirnar aftur til kynslóðar foreldranna, og sýnir okkur af hverju það var brýnasta nauðsyn að losa þessar konur úr þeirri skelfilegu klemmu sem þær voru í sem ofsóttar í ríki sem þær höfðu samt engan möguleika til að flýja úr.

Sjálfur tæpti ég eitt sinn á annarri slíkri sögu sem sögð var af Ali Nayef, íröskum flóttamanni sem átti lítinn strák uppi á Íslandi. Danir ætluðu að senda hann í ofsóknirnar til Íraks aftur. Þrátt fyrir forsíðuviðtal í Mogganum og ýmis konar þrýsting á íslensk stjórnvöld – núverandi vintri stjórn – gerðu þau ekkert. Ekkert.

Hann sagði mér um og ofan af sinni sögu í því spjalli og hvaða örlög biðu hans ef hann yrði sendur til baka til Íraks. Hann var mjög, mjög hræddur. Eftir lestur bókar Sigríðar Víðis Jónsdóttur ætti enginn að efast um að frásögn Ali Nayefs var jafnsönn og frásögn kvennanna á Akranesi.

– – –

Sjálfsagt munu einhverjir fyllast stolti yfir góðmennsku Íslendinga við að koma þessum fjölskyldum úr prísund sinni og alla leið upp á Skaga. Allt endaði vel.

Hjá mér skilur hún eftir óbragð í munni. Smánarlega lítill fjöldinn er okkur, einu best setta þjóðfélagi í heimi, til háðungar og skammar. Hann sýnir ekki þjóð sem nærir í brjósti náungakærleik. Sérstaklega þegar horft er til þess að viðbragð okkar við skitinni fjármálakreppu, þar sem allir neyddust til að aka á notuðum bílum í stað nýrra jeppa í örfá misseri, var það meðal annars að skera niður gagnvart þeim sem miklu meira eru þurfandi en við. Taka við enn þá færri flóttamönnum og veita enn minna til þróunarsamvinnu.

Aðrir eiga að hjálpa okkur, svo við getum aftur keypt jeppa, en við eigum ekki að hjálpa öðrum.

Ísland hefur ekkert efni á að monta sig yfir móttökum þess á flóttafólkinu á Skaganum. Það var sjálfsagt mál og álíka hallærislegt að setja sig á háan hest yfir því og því að maður hafi, af góðmennsku sinni, ekki siglt framhjá drukknandi manni úti á rúmsjó.

Ísland á miklu frekar að skammast sín niður í tær fyrir þá smán að skilja eftir í eyðimörkinni systur hennar Línu og fjölskyldu hennar, dóttur hennar Aydu og fjölskyldu hennar og marga tugi aðra. Svo ekki sé minnst á allt hitt fólkið víðs vegar um heiminn sem finnst alveg ábyggilega langtum skárra að takast á við svellbungur og skammdegismyrkur en það að þurfa daglega að rembast við að halda lífi í sjálfum sér og börnunum sínum við hörmungaraðstæður.

Ríkisfang: Ekkert er tímamótaverk á sínu sviði á Íslandi og nauðsynlegur lestur, ekki síst fyrir þá sem eru svo kaldbrjósta að finnast friðsælasta og eitt best stæða ríki heims eiga að standa lokað og læst fyrir fólki í sárri nauð. Lengi skal vissulega manninn reyna, en ég neita samt eiginlega að trúa því að til sé það fólk sem enn efast, eftir lestur þessarar bókar, um að konurnar á Akranesi hafi nóg reynt til þess að eiga skilið að búa þar frekar en í Al Waleed-flóttamannabúðunum og það sama eigi við um fjölda annarra sem ekki fékk að koma.

Ritið sjálft er vel unnið, textinn er nokkuð lipur og frásögnin rennur yfirleitt vel þó að mér hafi þótt uppbygging hennar dálítið höktandi stundum. Palestínukaflinn fannst mér t.d. nokkur útúrdúr, þar á meðal með óþarflega langri frásögn af fremur almennt þekktri þróun sögunnar um stofnun Ísraelsríkis og afleiðingum þess fyrir Palestínumenn. Höfundurinn hefði líka að ósekju mátt vera enn beittari í gagnrýni á námundað-við-núll-flóttamannastefnu íslenskra stjórnvalda.

Við höfum nefnilega engar afsakanir. Við bara viljum ekki.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Filed under íslenskar bókmenntir, fræðibækur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s