Underbara dagar framför oss eftir Henrik Berggren

Það kann að virðast undarlegt að heil 24 ár þurfi að líða frá ótímabærum dauða eins frægasta og umtalaðasta stjórnmálamanns Svía og þar til að fyrsta alvöru ævisagan um hann kemur út.

En þannig er það í tilfelli Olofs Palme sem var myrtur snemma árs 1986 og lá eftir það hálfóbættur hjá garði í ævisöguflokknum þangað til að sænski blaðamaðurinn og sagnfræðingurinn Henrik Berggren sendi frá sér mikið verk um Palme árið 2010.

Og það er, satt að segja, kannski ekkert svo skrýtið. Í mjög mörg ár eftir morðið á Olof Palme varpaði hið óleysta morðmál sjálft svo stórum skugga yfir allt líf Palmes að það var nánast ógerningur fyrir nokkurn mann að nálgast manninn án þess að eiga á hættu að fótumtroða hið tilfinningalega jarðsprengjusvæði sem skelfilegur dauðdagi forsætisráðherrans fyrrverandi skildi eftir sig. Ekki þótti lengur passandi að gagnrýna orð eða verk Palmes en að sama skapi voru fyrrum samherjar hans áskynja þess hversu illa það þótti eiga við að hefja sig upp á minningunni um hann.

Um Olof Palme, arfleið hans og morðmálið skrifaði ég raunar opnuumfjöllun fyrir Morgunblaðið árið 2006 þegar 20 ár voru liðin frá dauða Palme. Ég vísa til hennar hér en læt annars staðar numið um Palme sjálfan og sný mér að ævisögunni frá 2010.

Henrik Berggren fer allt aftur á 19. öld til að rekja ævi Olofs Palme í þessari bók, þ.e. langt aftur fyrir fæðingu hans. Kannski má því segja að sagan byrji eins og Íslendingasögurnar gera oft, með forsögu forfeðranna og hvernig hún leiðir til örlaga aðalpersónunnar.

Palme-fjölskyldan var háborgaraleg, virt og rík fjölskylda sem settist að í ríkra manna hverfinu Östermalm í Stokkhólmi og þar ólst Olof Palme upp. Svo ítarleg er þessi forsaga rakin að á tímabili var ég farinn að hugleiða hvort nokkurn tíma stæði til að kynna sjálfa aðalsöguhetjuna til sögunnar í hennar eigin ævisögu. Þessi forsaga var því, með öðrum orðum, kannski óþarflega ítarleg. Það hefði mátt koma forsögunni til skila á mun knappari hátt en samt leiða lesandanum það fyrir sjónir sem sjálfsagt var tilgangurinn: að sýna úr hversu háborgaralegu umhverfi Olof Palme kom og hversu mikið uppbrot það var að hann skyldi rífa sig út úr þeim hægri sinnaða fílabeinsturni og gerast leiðtogi sjálfra höfuðandstæðinganna, aðalmálsvara verkalýðsstéttarinnar.

Það sem frábært er við svona epískar ævisögur merks fólks er hvernig þær segja í leiðinni sögu samfélagsins sem sögupersónurnar lifa og hrærast í og, í tilviki manna eins og Olof Palme, eiga þátt í því að móta. Við lesum í þessari ævisögu um Svíþjóð sem breytist úr stéttskiptu og bláfátæku samfélagi (einu fátækasta í Evrópu á tímabilinu í kringum aldamótin 1900) og til þess að verða öld síðar orðið forgangsland í heiminum hvað varðar félagslegan jöfnuð, mikla velsæld og ríkidæmi og víðfeðmt velferðarkerfi.

Fyrir sérstakt áhugafólk um sænsk stjórnmál er þessi bók svo auðvitað algjör konfektkassi. Hér fylgist maður með því hvernig sænski sósíaldemókrataflokkurinn festist í sessi sem lykilafl í sænsku samfélagi og aðalmótandi þess. Það er líka athyglisvert að sjá í samhengi sveiflurnar fram og til baka á hægri vængnum þar sem vægi sósíallíberalíska Folkpartiet og miðsækna dreifbýlisflokksins Centerpartiet dvínar eftir því sem líður á á 7. og 8. áratug síðustu aldar og frjálslyndi flokkurinn Moderatarna verður stóri hægri flokkurinn.

En áhugaverðast er auðvitað að sjálfsögðu að fylgja eftir ferli stjórnmálamannsins Olofs Palme. Kannski kemur mest á óvart við lestur þessarar bókar hversu mikið allt sem hann gerir hangir saman, hvort sem hann er alþjóðlegur stúdentaleiðtogi, sáttasemjari á vegum SÞ, að berjast gegn vígvæðingu og Víetnam-stríðinu eða að berjast í pólitíkinni innanlands. Alltaf er hann í rauninni að boða sömu pólitíkina og hún er í raun alltaf í anda klassískrar jafnaðarstefnu. Margir hafa kannski þá ímynd af Olof Palme í dag að hann hafi verið róttækur á öllum sviðum og alltaf brotið blað en svo var alls ekki. Stundum var það vissulega svo en yfirleitt einkenndist hans pólitík af hreinni raunhyggju og pragmatisma.

Annað sem kemur á óvart er hversu veldi hans stóð í raun alltaf tæpt. Oft eru sósíaldemókratarnir á mörkunum að tapa völdunum yfir til hægri armsins í kosningum í Svíþjóð og því má heldur ekki gleyma að það var í tíð Olofs Palme sem að eina uppbrot samfelldrar valdatíðar sænskra sósíaldemókrata kom þegar að borgaraflokkarnir í Svíþjóð náðu völdum 1976-1982. Síðan hefur það gerst aftur frá og með árinu 2006 en það er önnur saga. Olof Palme var ekki heldur óumdeildur í eigin flokki, á öllum tímum valdatíðar hans voru markbær öfl innans flokks hans sem vildu annan í hans stað.

Ævisaga Henrik Berggrens er fyrst og fremst pólitísk ævisaga. Ekki er mikið farið í einkalíf viðfangsefnisins og morðmálið kemur ekkert við sögu, nema rétt í formála. Sögunni lýkur einfaldlega þegar Palme hnígur niður á Sveavägen í Stokkhólmi eftir skotárásina alræmdu, síðasta kvöld febrúarmánaðar 1986.

Ég get vel skilið þá ákvörðun höfundarins að einblína með þessum hætti á sjálfan stjórnmálamanninn, mótun hans, skoðanir og verk. En ég hefði samt ekkert haft á móti enn þá umfangsmeiri stúdíu sem dregur inn alla þessa þætti. Ég býð því enn spenntur eftir enn meiri ,,definitive“ ævisöguverki um Olof Palme, þó að þessi sé án nokkurs vafa þangað til sú sem gerir tilkall til þess að vera stóra og mikla ævisagan, með ákveðnum greini, um Olof Palme.

Ein athugasemd

Filed under erlendar bókmenntir, fræðibækur

One response to “Underbara dagar framför oss eftir Henrik Berggren

  1. Bakvísun: Ævisaga Olofs Palme | „Frændur vorir…“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s